Goods & Services

Það getur verið gaman að versla erlendis, úrvalið er oft meira en hér heima og verðið hagstæðara. Það er því gott að vita að þegar verslað er erlendis gilda að mestu sömu reglur og hér heima og neytendur njóta því margvíslegra réttinda. Ókosturinn er kannski helst sá að komi upp galli er heldur meira mál að kvarta við seljanda á Spáni en í Kringlunni. En þá kemur ECC-netið einmitt til skjalanna og aðstoðar neytendur við að leita réttar síns.

Þegar neytandi, það er einstaklingur utan atvinnurekstrar, kaupir vöru af einhverjum sem seljur hana í atvinnuskyni gilda lög um neytendakaup. Lögin fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/44/EB frá 25. maí 1999 um tiltekna þætti í sölu neysluvara og ábyrgð þar að lútandi . Þessi tilskipun er í gildi á öllu EES-svæðinu, og leiðir því til þess að réttur neytenda er að mörgu leyti sá sami óháð því í hvaða landi innan EES varan er keypt. 

Lög um neytendakaup nr. 48/2003

Neysluvörur – þ.e. lausafé sem neytandi kaupir, s.s. fatnaður, húsgögn, bifreiðar, eldhúsáhöld, raftæki o.s.frv. – eiga að vera í samræmi við samning, þ.e. í samræmi við lýsingar seljanda á þeim, henta til þeirra nota sem neytandinn ætlar þeim, henta til sömu nota og sambærilegar vörur og  vera í samræmi við réttmætar væntingar neytandans hvað varðar gæði og notagildi. Þá skulu fylgja vörunni leiðbeiningar um uppsetningu o.þ.h. Ef þessi atriði eru ekki ´lagi er varan gölluð í skilningi laganna.

Sé vara gölluð að þessu leyti á neytandinn rétt á því að velja milli viðgerðar eða nýrrar afhendingar, sé slíkt ekki ógerlegt eða óhóflegt. Viðgerðir og skipti á vörum skulu fara fram án verulegra óþæginda og kostnaðar fyrir neytandann og innan sanngjarnra tímamarka. Sé viðgerð eða afhending nýrrar vöru ekki möguleg á neytandinn rétt á afslætti eða því að rifta kaupunum (skila vörunni og fá endurgreitt) sé galli verulegur.

Sé vara (hér getur verið um að ræða allt frá sokkapari og upp í lúxusbifreiðar) gölluð á neytandi rétt á að fá gert við hana, fá nýja vöru í staðinn, fá afslátt af kaupverðinu eða hætta við kaupin. Neytandi getur kvartað yfir galla sem kemur upp innan tveggja ára frá afhendingu vörunnar (í íslenskum lögum er þessi kvörtunarfrestur þó fimm ár þegar um er að ræða sem er ætlaður verulega lengri endingartími en almennt gerist).

 Eftir að sex mánuðir eru liðnir frá kaupum þarf neytandinn þó að sýna fram á að gallinn hafi verið til staðar við afhendingu vörunnar, en innan sex mánaða er litið svo á að gallinn hafi verið til staðar frá afhendingu og þarf seljandi þá að sýna fram á það telji hann slæma meðferð neytandans hafa valdið skemmdum eða bilun.  Neytandi þarf alltaf að tilkynna um gallann án ástæðulauss dráttar eftir að hann verður gallans var (það getur verið misjafnt eftir löndum hve langur þessi frestur er en heimilt er að hafa hann allt niður í tvo mánuði frá því gallans verður vart)..

Um galla og úrræði neytenda vegna þeirra er fjallað ítarlega í lögum um neytendakaup, en þau eru sambærileg innan alls EES-svæðisins, og um ófrávíkjanlegan rétt neytenda er að ræða en ekki „ábyrgð“ sem seljandi hefur ákveðið að veita sérstaklega. Lagalegan rétt neytenda til að fá bætt úr galla á vöru má seljandi því ekki skilyrða með neinum hætti.

Um sérstaka „ábyrgð“ seljanda, en t.a.m. getur verið um að ræða tíu ára ábyrgð á lakki bifreiða, fimmtán ára ábyrgð á dýnugormum o.s.frv., er svo fjallað í lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005, en þau lög fela í sér innleiðingu á Evróputilskipun og eru því sambærileg á öllu EES svæðinu. Þar segir að seljandi megi ekki veita sérstaka ábyrgð nema hún veiti meiri rétt en kaupandi á samkvæmt lögum. Lögbundinn réttur neytanda til að fá bætt úr galla er því ekki sérstök „ábyrgð“ seljanda heldur er „ábyrgð“ loforð um að kaupandinn fái meiri rétt en hann á lagalega kröfu á.

Ef seljandi tekur svo sérstaka ábyrgð á vöru sem hann selur þarf hann að upplýsa neytanda um gildissvið ábyrgðarinnar og hvaða skilyrði eru sett fyrir því að neytandi geti fengið úrbætur á grundvelli ábyrgðarinnar. Að því marki sem slík skilyrði teljast ekki ósanngjörn getur seljandi því sett ákveðin skilyrði fyrir því að ábyrgðin gildi. Virði neytandinn svo ekki slík skilyrði getur það valdið því að „ábyrgð“ falli niður, en eftir sem áður er lögbundinn réttur neytandans til úrbóta vegna galla til staðar.

Hér á landi eru í gildi sérstök lög um þjónustukaup sem gilda þegar neytendum er veitt þjónusta í atvinnuskyni. Heiti laganna er svo e.t.v. nokkuð blekkjandi en þau gilda ekki um það sem við tölum í daglegu tali um sem þjónustu, eins og þjónustu snyrti- og hárgreiðslustofa, veitingahúsa og gististaða. Lögin gilda hins vegar um vinnu við lausafjármuni og fasteignir (t.a.m. viðgerðarþjónusta og iðnaðarmenn). Í lögunum er m.a. fjallað um það hvenær seld þjónusta telst gölluð og hvaða úrræði neytendum standa til boða sé um gallaða þjónustu að ræða.

Þessi lög byggja ekki á Evrópureglum og því má ætla að reglur um þjónustukaup séu eitthvað frábrugðnar þeim í öðrum löndum. Vegna landfræðilegrar einangrunar Íslands er svo hæpið að ætla að íslenskir neytendur kaupi mikla þjónustu, eins og hún er skilgreind í þjónustukaupalögum, af erlendum seljendum.

Lög um þjónustukaup nr. 42/2000

Lög um þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins fela í sér innleiðingu á þjónustutilskipun ESB og hafa það að markmiði að greiða fyrir frjálsum þjónustuviðskiptum og tryggja jafnræði þeirra sem veita þjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins en viðhalda jafnframt hágæðaþjónustu.

Lögin fjalla ekki beinlínis um rétt neytenda í einstökum viðskiptum komi upp galli á þjónustunni sem um ræðir, hins vegar er í lögunum kveðið á um bann við mismunun kaupenda þjónustu á grundvelli þjóðernis eða búsetu, og einnig er að finna í þeim reglur um upplýsingar sem eiga að vera aðgengilegar fyrir viðtakendur þjónustu. Neytendastofa sér t.d. um veitingu almennra upplýsinga um kröfur sem gilda um aðgang að þjónustustarfsemi í öðrum EES-ríkjum og um tiltækar leiðir til að leggja fram kvartanir, og hvernig eigi að ná sambandi við ECC-netið og önnur slík samtök eða stofnanir sem bjóða fram aðstoð. Jafnframt er í lögunum að finna ítarlegar reglur um hvaða upplýsingar þjónustuveitendur eiga að veita viðskiptavinum sínum.