Allar reynslusögur

Skemmdur stuðari

Franskur ferðamaður leigði bílaleigubíl á meðan dvöl hans á Íslandi stóð. Við skil á bílnum fundust tvær sprungur á stuðara og óskaði bílaleigan eftir því að ferðamaðurinn greiddi 350.000 kr. í tryggingu fyrir skemmdunum. Eftir að ferðamaðurinn kom heim sá hann að bílaleigan hefði tekið af reikningi hans 175.000 kr. án nokkurra skýringa. Leitaði hann þá til ECC eftir aðstoð. Eftir að ECC hafði samband við bílaleiguna fékk ferðamaðurinn reikninga fyrir viðgerð bifreiðarinnar og mismuninn af hinni innheimtu upphæð og raunverulegum kostnaði við viðgerðina endurgreiddan.


Skrítin krafa frá bílaleigu

Íslenskur ferðamaður leigði bíl á ferðalagi sínu í Bretlandi og skilaði bílnum án nokkurra vandræða. Eftir að hann var kominn heim sendi lögreglan Í Yorkshire á Englandi fyrirspurn til bílaleigunnar og óskaði eftir upplýsingum um hver hefði verið skráður leigjandi bílsins á þeim tíma sem um ræddi. Fyrir að veita lögreglunni þessar upplýsingar innheimti bílaleigan 36 pund vegna  svokallaðs „administration fee“ hjá ferðamanninum. Hann hafði þá samband við lögregluna og var tjáð að engin sekt væri skráð á bílinn. Einnig kom í ljós að það væri ómögulegt að bíllinn hefði verið á þeim stað þar sem meint brot var framið en sá staður var 362 km frá bílaleigunni, en bílnum hafði einungis verið ekið 283 km meðan á leigutímanum stóð. Bílaleigan neitaði þó að endurgreiða ferðamanninum gjaldið þrátt fyrir að það væri ómögulegt að hann hefði átt einhvern hlut að máli og þótt lögreglan hefði staðfest að það væri engin eftirlýsing eða sekt skráð á bílinn. Ferðamaðurinn leitaði þá til ECC á Íslandi og óskaði eftir aðstoð. ECC-netið áframsendi málið til kærunefndar í Englandi og lauk því með því að bílaleigan endurgreiddi ferðamanninum hið umdeilda gjald.


Aukagjald hjá bílaleigu

Íslenskur ferðamaður leigði bílaleigubíl á ferðalagi sínu um Danmörku. Við undirritun leigusamnings merkti hann við þrenns konar tryggingar með upphafsstöfum sínum en veitti því ekki athygli að bílaleigan hafði bætt við fjórðu tryggingunni í samninginn, án þess að ferðamaðurinn hefði óskað eftir því eða verið sérstaklega tilkynnt um það. Ferðamaðurinn gerði athugasemd þegar honum barst reikningur eftir uppgjör við bílaleiguna en honum var neitað um endurgreiðslu fyrir trygginguna, sem var um 43.000 ISK. Þá leitaði hann aðstoðar hjá ECC á Íslandi sem sendi málið til systurstöðvar sinnar í Danmörku. Málalok urðu þau að bílaleigan samþykkti að endurgreiða ferðamanninum alla upphæðina.