Allar reynslusögur

Afsláttur vegna bilaðrar bifreiðar

Spænskur neytandi leigði bíl á Íslandi í 10 daga. Á öðrum degi bilaði bíllinn. Bílaleigan neitaði að afhenda annan bíl og bað manninn um að fara með bílinn á nærliggjandi verkstæði þar sem bilunin var smávægileg. Viðgerðin tók þó einn dag svo maðurinn þurfti að gera hlé á ferð sinni á meðan. Maðurinn hafði farið fram á endurgreiðslu á leiguverðinu sem svaraði til þessa eina dags ásamt skaðabótum en var hafnað. Hann leitaði því til ECC á Spáni sem sendi málið til Íslands til úrlausnar. Eftir milligöngu ECC fékk maðurinn endurgreitt leiguverð sem svaraði til eins dags þar sem hann gat ekki haft afnot af bílnum í heilan dag.  


Ekki boðið upp á tryggingu?

Tvær konur frá Bretlandi leigðu bílaleigubíl á Íslandi. Þegar þær sóttu bílinn á Keflavíkurflugvelli afþökkuðu þær viðbótartryggingu sem nær meðal annars yfir framrúðutjón. Konurnar lentu í miklum stormi á milli Hafnar og Djúpavogs. Næsta morgun tóku þær eftir talsverðum sandskemmdum á vinstri hlið bílsins, bæði að framan og aftan. Þegar þær skoðuðu skilmála leigusamningsins kom þeim á óvart að hvergi var minnst á tryggingu fyrir sand-/öskuskemmdum. Þá höfðu þær ekki verið varaðar við þegar þær tóku bílinn að gera mætti ráð fyrir slíkum skemmdum við vissar aðstæður. Konurnar voru í kjölfarið rukkaðar um tæplega 800.000 krónur fyrir áætluðum viðgerðarkostnaði. Þær kvörtuðu skriflega til bílaleigunnar sem harmaði atvikið og baðst afsökunar á að þeim hefði ekki verið boðin sand-/öskutrygging. Sjálfsábyrgð slíkrar tryggingar væri 170.000 kr. og hefði tryggingin kostað þær um 10.000 kr. Bílaleigan lofaði að endurgreiða konunum 616.000 kr. sem var áætlaður viðgerðarkostnaður að frádreginni sjálfsábyrgð og kostnaði við töku tryggingarinnar. Engin greiðsla barst þó. Leituðu konurnar því til ECC í Bretlandi sem sendi málið til ECC á Íslandi. Eftir milligöngu ECC endurgreiddi bílaleigan konunum 616.000 kr. auk 45.000 kr. vegna misræmis á gengi.


Virðisaukaskattur vegna viðgerðar

Þýskur ferðamaður leigði bílaleigubíl á Íslandi í september 2013.  Á ferð hans um landið varð hann fyrir miklum sandstormi á Suðurlandi sem olli talsverðu tjóni á bifreiðinni.  Bílaleigan bauð ekki upp á tryggingu fyrir slíku tjóni og kom það fram í leigusamningi þeim er ferðamaðurinn undirritaði.  Ferðamaðurinn var því rukkaður um 644.412 kr. fyrir viðgerðarkostnaði.  Ferðamaðurinn leitaði til ECC í Þýskalandi í þeirri von að hann ætti einhvern lagalegan rétt eða gæti e.t.v. fengið reikninginn lækkaðan með milligöngu aðstoðarinnar.  Lagalegur réttur reyndist ekki fyrir hendi en ECC í Þýskalandi freistaði þess að reyna mögulega málamiðlun og sendi því málið til ECC-Íslands sem hafði samband við bílaleiguna og fór fram á að viðgerðarreikningurinn yrði lækkaður sem næmi virðisaukaskatti eða um 130.936 kr. þar sem sá kostnaður lendir í raun ekki á bílaleigunni.  Bílaleigan brást skjótt við og endurgreiddi virðisaukaskattinn inn á kort ferðamannsins strax daginn eftir.


Hröð vinnubrögð hjá ECC

Franskur neytandi leigði sér bílaleigubíl meðan hann var á ferðalagi hér á landi. Við skil bílsins fóru neytandinn og starfsmaður bílaleigunnar yfir ástand hans og var engin athugasemd gerð. Tveimur dögum eftir skil sendi bílaleigan hins vegar bréf til neytandans þar sem tilkynnt var um að skemmdir hefðu fundist á bifreiðinni. Bílaleigan gjaldfærði því 300 evrur af kreditkorti neytandans vegna skemmdanna og tilkynnti jafnframt að 208 evrur að auki yrðu innheimtar á næstu dögum. Neytandinn var að vonum ósáttur við þetta enda kannaðist hann ekki við annað en að hafa skilað bílnum í fullkomnu ástandi. Hann leitaði því til ECC í Frakklandi sem sendi málið til ECC stöðvarinnar á Íslandi. Eftir milligöngu ECC-netsins féllst bílaleigan á að endurgreiða það sem þegar hafi verið rukkað og fella niður fyrirhugaðan reikning, einum sólarhring eftir að ECC á Íslandi fékk málið í hendur. Einnig sendi bílaleigan neytandanum persónulega afsökunarbeiðni vegna óþægindanna. Með aðstoð Evrópsku neytendaaðstoðarinnar leystist málið því fljótt og vel.


Vitlaus leigutími á bílaleigubíl

Íslenskur ferðamaður pantaði bílaleigubíl gegnum leigumiðlun á netinu. Þegar hann fyllti út leigubeiðnina breyttist upphaf leigutíma í kl. 10:00, en hann hafði ætlað að leigja bílinn seinna um daginn. Hann komst hins vegar ekki á bílaleiguna fyrr en klukkan 14:00. Þá var honum tjáð að hann væri of seinn og það væri þegar búið að leigja bílinn og að enginn annar bíll stæði til boða. Leigumiðlunin neitaði að ógilda bílaleigupöntunina og neitaði jafnframt að endurgreiða manninum þá 5 daga leigu sem hann hafði greitt fyrir. Ferðamaðurinn setti sig þá í samband við ECC á Íslandi sem hafði samband við ECC í Þýskalandi þar sem leigumiðlunin var skráð. Eftir milligöngu ECC-netsins féllst leigumiðlunin á að endurgreiða helminginn af pöntuninni. Íslenski ferðamaðurinn sætti sig við þá niðurstöðu en ECC-netið mun jafnframt freista þess að fá mismuninn frá bílaleigunni sjálfri.


Framrúðutjón á bílaleigubíl

Franskur ferðamaður leigði bílaleigubíl á Íslandi og varð fyrir framrúðutjóni meðan á leigunni stóð. Þegar hann skilaði bílnum var eigandi bílaleigunnar ekki á svæðinu til að taka á móti bílnum og skoða ástand hans og ferðamaðurinn skilaði því lyklinum og fór heim. Bílaleigan dró svo 42.000 kr. af korti mannsins vegna tjónsins án þess að reikningur fylgdi kröfunni. Maðurinn leitaði þá til ECC-netsins og bað um aðstoð við að fá afrit af öllum reikningum og gögnum svo hann gæti krafið tryggingafélag sitt um endurgreiðslu vegna tjónsins. Eftir milligöngu ECC á Íslandi sendi bílaleigan öll gögn og reikninga vegna tjónsins. Ferðamaðurinn hafði þá tök á að tala við tryggingafyrirtæki sitt og krefjast bóta vegna tjónsins.