Allar reynslusögur

Ítalskur neytandi fær endurgreiðslu með hjálp ECC

Neytandi frá Ítalíu leigði bíl á Íslandi.  Við skil á bílnum var hann rukkaður um sjálfsábyrgð á kaskó tryggingu sem hann hafði keypt hjá bílaleigunni, upp á 162.000 krónur, sökum skemmda á afturstuðara.  Neytandanum fannst þetta ansi há upphæð og leitaði því til ECC-stöðvarinnar á Ítalíu sem sendi málið til ECC á Íslandi.  Eftir að ECC Ísland bað um reikning fyrir viðgerð bílsins kom í ljós að viðgerðarkostnaður var aðeins um 116.000 krónur og var neytandanum því endurgreiddur mismunurinn eða um 46.000 krónur.


Ferðanefnd úrskurðar sænskum neytanda í hag

Sænskur neytandi leigði bíl af íslenskri bílaleigu. Tæplega þremur vikum eftir að viðkomandi hafði skilað bílnum voru 120.000 krónur dregnar af kreditkortareikningi hans. Neytandanum barst síðar bréf þess efnis að um væri að ræða sjálfsábyrgð vegna tjóns á afturstuðara og framrúðu. Viðkomandi kannaðist ekki við að hafa valdið umræddu tjóni og fór því fram á endurgreiðslu. Því hafnaði bílaleigan og taldi að skemmdirnar hefðu komið til á meðan neytandinn hafði bifreiðina í sinni vörslu. Máli sínu til stuðnings lagði bílaleigan fram myndir af skemmdunum á bifreiðinni ásamt samantektarskýrslu bifreiðaverkstæðis vegna tjónsins. Þrátt fyrir milligöngu ECC tókst ekki að ná sáttum í málinu og aðstoðaði ECC á Íslandi því neytandann við að leggja málið fyrir Úrskurðarnefnd Neytendasamtakanna og Samtaka ferðaþjónustunnar. Niðurstaða nefndarinnar var sú að bílaleigunni var gert að endurgreiða þá fjárhæð sem dregin hafði verið út af kreditkortareikningi, m.a. með þeim rökum að myndir þær er bílaleigan lagði fram í málinu sýndu ekki með óyggjandi hætti fram á að tjónið hefði átt sér stað áður en bílnum var skilað, en enginn starfsmaður bílaleigunnar var viðstaddur skilin á bílnum.


Vandræði við bílaleigu

Íslenskur maður leigði bíl í Þýskalandi.  Hann skilaði bílnum á flugvellinum þar sem starfsmaður bílaleigunnar tók við lyklunum og spurði manninn hvort allt væri í lagi og maðurinn jánkaði því.  Þegar maðurinn kom heim sá hann sér til furðu að bílaleigan hafði dregið út af kortinu hans um 115.000 krónur. Kom í ljós að færslan hafði verið send inn aðeins um klukkutíma eftir skil bílsins. Manninum barst svo bréf frá bílaleigunni 10 dögum seinna um að skemmd hefði verið aftan á bílnum og að áætlaður viðgerðarkostnaður væri um 115.000 krónur.  Með bréfinu fylgdi mjög óljós mynd af afturhluta bílsins en af henni var ómögulegt að sjá hvað var um ræða.  Engin dagsetning var á myndinni né mynd af kílómetrastöðu bílsins. Þar sem maðurinn kannaðist ekki við að hafa valdið skemmd á bílnum, leitaði hann til ECC á Íslandi sem sendi málið út til Þýskalands.  Maðurinn krafðist fullrar endurgreiðslu eða frekari sannana á tjóninu.  Þar sem bílaleigan gat ekki fært frekari sönnur á tjónið var færslan bakfærð að fullu.


Of hár viðgerðarkostnaður

Franskur ferðamaður leigði bílaleigubíl á Íslandi.  Við skil á bílnum var sprunga á hægra afturljósi bílsins en bíllinn var yfirfarinn við skilin og maðurinn rukkaður um áætlaðan viðgerðarkostnað að upphæð 57.000 krónur.  Honum fannst kostnaðurinn ósanngjarn og leitaði til ECC-stöðvarinnar í Frakklandi sem sendi málið til ECC á Íslandi sem óskaði eftir reikningi fyrir viðgerðinni frá bílaleigunni. Kom í ljós að viðgerðarkostnaður var í raun ekki nema 37.000 krónur og fékk maðurinn því endurgreiddar kr. 20.000.


Skemmdir á bílaleigubíl?

Íslenskur neytandi leigði bíl í Þýskalandi.  Bílnum var skilað án athugasemda frá bílaleigunni en starfsmaður hennar skoðaði bílinn við skilin. Tveimur mánuðum seinna fékk neytandinn bréf frá bílaleigunni þar sem honum var tilkynnt að bíllinn hefði verið skemmdur þegar honum var skilað, um væri að ræða rispu á framstuðara.  Bílaleigan hafði tekið um 70.000 krónur af kreditkorti neytandans fyrir skemmdinni.  Meðfylgjandi bréfinu frá bílaleigunni var reikningur frá verkstæði sem var um 450 km frá þeim stað er hann leigði bílinn.  Engar myndir af skemmdinni voru meðfylgjandi til sönnunar. Neytandinn kannaðist ekki við að hafa valdið umræddum skemmdum og hafði þegar hafnað greiðslunni hjá kreditkortafyrirtæki sínu þegar hann kom með mál sitt til ECC.  ECC-Ísland sendi málið strax til ECC í Þýskalandi og í kjölfarið endurgreiddi bílaleigan upphæðina inn á kreditkort neytandans án athugasemda.


Engin sönnun fyrir skemmdum á bílaleigubíl

Íslenskur neytandi leigði bílaleigubifreið á Spáni. Eftir skil bifreiðarinnar voru dregnar um 216 evrur af kreditkortareikningi hans vegna meintra skemmda. Neytandinn óskaði eftir skýringum svo hann gæti fengið endurgreiðslu frá tryggingarfélagi sínu. Engar skýringar fengust hjá bílaleigunni og leitaði neytandinn því til ECC-netsins. ECC-Ísland og ECC-Spánn gengu í málið og fengust þá skýringar frá bílaleigunni, s.s. mynd af meintri skemmd. Myndin var hins vegar af annarri bifreið en þeirri sem neytandinn hafði leigt og engin sönnunargögn fundust um tjón á bifreið þeirri sem neytandinn leigði. Neytandinn fékk því fulla endurgreiðslu.