Allar reynslusögur

Týndur farangur

Til ECC leitaði maður sem hafði flogið með íslenskum flugrekanda frá Keflavík til Varsjár með millilendingu í Zurich í Sviss.  Maðurinn hafði innritað tösku sína í flugið en fékk hana ekki afhenta við komuna til Varsjár og tilkynnti því tapaðan farangur við komu sína þar. Níu dögum síðar sendi maðurinn flugfélaginu tölvupóst þar sem hann fór fram á bætur fyrir töskuna ásamt innihaldi hennar og fékk hann svar til baka um að málið væri í skoðun og jafnframt var hann beðinn um að fylla út sérstakt eyðublað um nákvæmt innihald töskunnar og áætlað verðmæti. Tæpum tveimur mánuðum síðar hafði hann enn ekkert frekara svar fengið frá flugfélaginu og sendi hann því ítrekun.  Þá barst honum svar til baka um að listinn með innhaldi töskunnar væri móttekinn en enn væri verið að freista þess finna töskuna.  Sagt var að samband yrði haft við hann fljótlega vegna málsins. Þremur mánuðum seinna hafði maðurinn enn ekki móttekið bætur vegna töskunnar né hafði verið haft samband við hann eins og lofað var og leitaði þá maðurinn til ECC í Póllandi sem áframsendi málið til ECC á Íslandi. Eftir milligöngu ECC, rúmum mánuði eftir að ECC á Íslandi hafði móttekið málið fékk maðurinn greiddar þær bætur er hann taldi réttilegar fyrir töskuna og innhald hennar eða 486 evrur.


Skemmdur farangur

Eldri borgari frá Ungverjalandi sem flaug með íslensku flugfélagi frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur í varð fyrir því að taskan hans skemmdist í meðförum flugfélagsins. Taskan var úr hörðu plasti og keypt sérstaklega fyrir þessa ferð. Maðurinn varð ekki var við skemmdina fyrr en hann kom á gististað sinn og hafði þá samband við Keflavíkurflugvöll og var sagt að sýna töskuna á leið sinni til baka sem hann gerði. Taskan var þá plöstuð fyrir hann þar sem gat/rifa var á töskunni og var hann beðinn að senda mynd af skemmdum þegar heim kæmi, sem hann og gerði.  Maðurinn fór fram á að fá kaupverð töskunnar, 85 evrur, að fullu bætt. Flugfélagið svaraði loks manninum eftir fjóra og hálfan mánuð og var svarið á þá leið að farið væri fram á bókunarnúmer, kvittun fyrir kaupum á töskunni og staðfestingu frá viðgerðaraðila á því að ekki væri hægt að gera við töskuna. Því miður átti maðurinn ekki kvittun fyrir töskunni og taldi ekki ástæðu til að fá mat viðgerðaraðila þar sem taskan væri úr hörðu plasti og því augljóst af ljósmyndum að ekki væri hægt að gera við hana. Í kjölfarið óskaði maðurinn eftir aðstoð ECC í Ungverjalandi sem sendi málið til ECC á Íslandi. Eftir milligöngu ECC á Íslandi varð flugfélagið við beiðni farþegans og greiddi töskuna að fullu.


Franskri fjölskyldu neitað um far

Frönsk fjölskylda keypti flug með íslensku flugfélagi frá París til Keflavíkur og þaðan til Boston.  Við innritun í París voru þau krafin um heimilisfangið sem þau ætluðu að dvelja á í Boston og var sú skýring gefin að nettenging flugvallarins lægi niðri. Heimilisfangið höfðu þau ekki á sér en þau höfðu verið búin að fylla út rafræna ESTA ferðaheimild sem farþegum frá flestum löndum í Evrópu sem eru í svokölluðu Visa Waiver Program er skylt að fylla út fyrir brottför til að mega ferðast til Bandaríkjanna án vegabréfsáritunar í 90 daga eða minna. Í ESTA heimildinni er skylda að taka fram heimilisfang gististaðar í Bandaríkjunum, og það hafði fjölskyldan gert.  Þegar þau gátu ekki gefið upp umrætt heimilisfang á flugvellinum var þeim synjað um far sem varð til þess að þau þurftu að fara í flug næsta dag. Viðbótarkostnaður vegna þess var 1.205 Evrur. Eftir ferðina krafðist fjölskyldan umrædds kostnaðar til baka frá flugfélaginu sem hafnaði beiðni hennar án skýringa.  Hún leitaði þá til Evrópsku neytendaaðstoðarinnar í Frakkalandi sem sendi málið til ECC-Íslands sem sendi flugfélaginu bréf.  Rúmlega einum og hálfum mánuði síðar samþykkti flugfélagið að greiða viðbótarkostnað fjölskyldunnar eða 1.205 evrur.


Týndar útilegugræjur

Fimm franskir ferðamenn flugu með íslensku flugfélagi frá Frakklandi til Bandaríkjanna með millilendingu á Íslandi. Af einhverjum ástæðum barst farangur þeirra ekki með flugvélinni til Bandaríkjanna og kvörtuðu þeir strax við flugfélagið. Þeir fengu þau svör að farangurinn yrði sendur til þeirra við fyrsta tækifæri. Svo fór að á meðan 19 daga dvöl þeirra stóð komst ekki allur farangurinn til skila. Ferðamennirnir neyddust því til að kaupa sér ýmsar nauðsynjar auk þess sem þeir þurftu að kaupa eða leigja ýmiss konar útivistarbúnað en megintilgangur ferðarinnar var að fara í útilegu. Ferðamennirnir kröfðu flugfélagið um að fá útlagðan kostnað endurgreiddan. Það bar ekki árangur og  settu þeir sig þá í samband við ECC-netið. Þeir höfðu gætt þess vel að geyma allar kvittanir og gátu því sýnt fram á raunveruleg útgjöld. Eftir milligöngu ECC á Íslandi fengu ferðamennirnir endurgreiddan útlagðan kostnað, að upphæð 1.173 evrur, ásamt því að flugfélagið bauð þeim gjafabréf sem sárabætur fyrir öll óþægindin.


Hætt við gistingu vegna veikinda

Breskur ferðamaður átti bókaða gistingu í níu nætur ásamt eiginkonu sinni á íslensku hóteli, en hann bókaði gistinguna í gegnum erlendan aðila. Vegna veikinda gat hann ekki nýtt sér fimm af þeim níu gistinóttum sem hann hafði pantað og greitt fyrir. Í skilmálum hótelsins kom fram að ef gisting væri afbókuð myndi hótelið einungis rukka fyrir eina gistinótt. Ferðamaðurinn leitaði því til ECC-netsins til að fá aðstoð við að fá fjórar gistinætur endurgreiddar. Forsvarsmenn hótelsins tóku vel í erindi ECC og sáu til þess, ásamt erlendu ferðamiðluninni, að maðurinn fékk endurgreiðslu.


Læti í miðbænum

Bresk hjón dvöldu í viku á gistiheimili í Reykjavík. Þau voru þó ekki sátt við aðstæður þar sem að þeirra mati var óásættanlegur hávaði í herberginu á kvöldin vegna skemmtanahalds. Hjónin kvörtuðu og óskuðu eftir flutningi í annað herbergi en þar sem gistiheimilið var fullbókað var ekki hægt að verða við þeirri ósk. Hjónin kröfðu gistiheimilið um bætur vegna þessa, en þeirri kröfu var hafnað og leituðu þau því til ECC. Eftir að ECC setti sig í samband við gistiheimilið var samþykkt að greiða hjónunum 35.400 kr. í bætur.