Allar reynslusögur

Strandaðir Frakkar fá bætur

Frönsk hjón áttu flug frá Keflavík til Parísar sem átti upphaflega að fara í loftið klukkan kl. 15:40 en seinkaði og fór ekki í loftið fyrr en rúmum þremur tímum síðar. Hremmingar hjónanna héldu svo áfram því stuttu eftir flugtak var farþegum tilkynnt að flugvélinni yrði snúið við vegna bilunar. Hjónin voru þá send á hótel þar sem þau voru í stutta stund áður en haldið var aftur út á flugvöll þar sem vélin átti að vera tilbúin að fara í loftið. Fluginu seinkaði þó enn frekar og fór ekki fyrr en um klukkan 8:20, eða tæpum 17 tímum eftir áætlaða brottför. Hjónin kröfðust skaðabóta í samræmi við Evrópureglugerð um réttindi flugfarþega en þegar það bar ekki árangur leituðu þau til ECC-netsins. Eftir milligöngu ECC lauk málinu með greiðslu skaðabóta að upphæð 800 evrur samtals.


Hringlað með brottför

Íslenskt par átti bókað flug frá Róm til Kölnar sem átti upphaflega að fara í loftið kl. 20:10 en fluginu var flýtt með skömmum fyrirvara og var nýr brottfarartími kl. 18:35. Þegar parið mætti á flugvöllinn hafði fluginu verið seinkað aftur og fór flugvélin því ekki í loftið fyrr en kl. 23:42 um kvöldið. Vegna seinkunarinnar varð parið fyrir ýmsum óþægindum og missti m.a. af tengiflugi til Íslands. Þar sem flugfélagið svaraði ekki umkvörtunum ákváðu þau að leita aðstoðar hjá ECC á Íslandi. Þaðan var málið sent áfram til Þýskalands og eftir milligöngu ECC fékk parið greiddar staðlaðar skaðabætur að upphæð 800 evrur samtals.


Verkfall flugmanna

Frönsk kona átti bókað flug frá Reykjavík til Parísar en fluginu var seinkað vegna verkfalls flugmanna. Konan krafði flugfélagið um staðlaðar skaðabætur í samræmi við Evrópureglugerð um réttindi flugfarþega en þeirri kröfu var hafnað. Hún hafði þá samband við ECC í Frakklandi sem sendi málið til ECC á Íslandi. Eftir að ECC hafði samband við fyrirtækið samþykkti það að greiða konunni skaðabætur í samræmi við reglugerðina, eða 400 evrur.


Öskuteppt par fær endurgreiðslu

Hollenskt par keypti sér fjögurra daga pakkaferð til Íslands. Vegna eldgoss varð mikil seinkun á fluginu og fór svo að þau misstu af einni gistinótt sem þau höfðu þegar greitt fyrir. Eftir milligöngu ECC féllst seljandi á að endurgreiða kostnaðinn vegna gistingarinnar og jafnframt á að greiða kostnað vegna hressingar sem parið hafði þurft að kaupa sér meðan á töfinni stóð.


Ferðamaður fær tjón á farangri bætt

Kona frá Lúxemborg ferðaðist til Íslands til að heimsækja ættingja yfir jólin.  Farangrinum hennar seinkaði í 6 daga og þegar hann kom loksins til landsins var taskan og hluti innihaldsins skemmd auk þess sem suma hluti vantaði í farangurinn.  Konan neyddist til að kaupa nýja ferðatösku ásamt lágmarks fatnaði og snyrtivörum til að nota yfir hátíðarnar og fór hún fram að fá kostnaðinn bættan frá flugfélaginu sem hafnaði kröfu hennar. Í kjölfarið leitaði konan til ECC í Lúxemborg sem sendi málið til ECC á Íslandi.  Að lokum samþykkti flugfélagið að bæta konunni tjónið að hluta en enn var ágreiningur um töskuna sjálfa.  Að endingu samþykkti flugfélagið þó að greiða töskuna og fékk því konan að lokum allt tjón sitt bætt.


Staðfestingargjald í skemmtisiglingu

Fimm einstaklingar pöntuðu siglingu gegnum þýska netsíðu í maí og greiddu 10% staðfestingargjald sem nam um 240 evrum á mann.  Ferðin átti að hefjast í lok janúar árið eftir.  Í september kom í ljós að fólkið þurfti að afpanta ferðina.  Í skilmálum á þýsku heimasíðunni kom fram að ef afpantað væri með meira en 60 daga fyrirvara þyrfti að greiða 5% af verði ferðarinnar.  Þar sem meira en 60 dagar voru í brottför óskaði fólkið eftir að fá helminginn af staðfestingargjaldinu til baka.  Seljandi hafnaði þeirri kröfu og sagðist halda eftir öllu staðfestingargjaldinu með þeim rökum að skilmálarnir á síðunni hafi verið úreltir og benti á skilmála skipafélagsins sem sögðu að greiða þyrfti 10% ferðarinnar ef afpantað væri með 60 daga fyrirvara eða meira.  Seljandinn vildi einnig meina að neytendurnir hefðu gert samning við skipafélagið en ekki sig. Í október hafði fólkið samband við ECC á Íslandi sem sendi málið til ECC í Þýskalandi og eftir milligöngu netsins fékk fólkið loks endurgreitt þessi 5% eða u.þ.b. 120 evrur á mann.