Allar reynslusögur

Endurgreiðsla með hjálp ECC

Finnskur neytandi pantaði vöru af íslenskri netverslun og greiddi fyrir hana. Svo fór þó að neytandanum barst aldrei varan. Í kjölfarið leitaði hann til ECC í Finnlandi sem sendi málið áfram til ECC á Íslandi. Seljandinn taldi sig tvívegis hafa sent vöruna í pósti en þar sem hún hafði þrátt fyrir það aldrei skilað sér féllst hann á að endurgreiða allan kostnað sem neytandinn hafði haft af kaupunum.


Sófaborð skemmist í flutningum

Sænskur maður keypti sófaborð í gegnum netið frá Kanada. Flutningsfyrirtæki flutti það frá Kanada til Íslands en svo sá annað fyrirtæki um að koma því áleiðis til Svíþjóðar. Þegar borðið var komið heim til neytandans sá hann að það var brotið. Hann sendi þá kvörtun í gegnum kvörtunarsíðu á netinu sem átti að koma henni áleiðis til flutningsfyrirtækisins en fékk aldrei neitt svar frá fyrirtækinu. Hann setti sig þá í samband við ECC og óskaði eftir aðstoð við að fá greiddar skaðabætur vegna tjónsins sem varð á borðinu. ECC hafði samband við flutningsfyrirtækið og kom þá í ljós að kvörtunin hafði aldrei borist og var hann því ekki búinn að kvarta innan tilskilins tímafrests. Eftir að ECC hafði verið í samskiptum við fyrirtækið féllst það þó á að bæta tjónið, þrátt fyrir að tímafresturinn hefði verið liðinn.


Íslensk hjón fá bætur vegna aflýsts flugs

Íslensk hjón áttu pantað flug með erlendu flugfélagi frá Englandi til Spánar. Hálfri klukkustund fyrir áætlaða brottför var fluginu aflýst án frekari skýringa. Eftir að hafa gist á nærliggjandi hóteli fóru hjónin aftur út á flugvöll og var þá sagt að viðkomandi flugfélag mundi ekki fljúga til þessa áfangastaðar næstu tvo daga. Urðu hjónin því að kaupa sér far með öðru flugfélagi. Eftir milligöngu ECC Íslands og ECC-stöðvarinnar í Bretlandi féllst flugfélagið á að greiða hjónunum bætur að upphæð 250 evrur hverju vegna aflýsingarinnar auk þess sem þau fengu upphaflega flugið, og gistinóttina á flugvallarhótelinu, endurgreitt.


ECC aðstoðar flugfarþega

Breskur ferðamaður átti flug frá Keflavík til Edinborgar. Vegna fellibyls sem gekk yfir Bandaríkin var ekki hægt að fljúga til Edinborgar og voru manninum boðnir tveir kostir þ.e. að fljúga til Gatwick í stað Edinborgar eða hætta við flugið og fá það endurgreitt.  Maðurinn valdi flugið til Gatwick þar sem hann þurfi að komast heim til Edinborgar.  Flugsali taldi að þar með hefði maðurinn valið annan áfangastað og þyrfti því sjálfur að koma sér á lokaáfangastað.  Maðurinn valdi hins vegar umrætt flug þar sem það var honum nauðugur kostur, en varð fyrir því tjóni að þurfa að greiða fyrir flug á milli London og Edinborgar en það kostaði 143 pund.  Maðurinn óskaði eftir endurgreiðslu frá flugfélaginu vegna umrædds flugmiða en flugsalinn taldi að honum bæri einungis að koma manninum til sama lands en ekki lokaákvörðunarstaðar og hafnaði því kröfu hans.  Eftir milligöngu ECC var manninum hins vegar endurgreiddur flugmiðinn enda bar flugfélaginu að koma honum á lokaáfangastað.


Bætur vegna seinkunar á flugi

Þrír neytendur frá Hollandi fóru í frí til Íslands.  Seinkun varð á heimflugi þeirra um tæpa 9 tíma vegna bilunar í vél.  Neytendurnir höfðu samband við flugfélagið eftir heimkomu og óskuðu eftir 400 evrum á mann í bætur ásamt máltíðum sem þeir höfðu þó ekki áttað sig að taka nótur fyrir.  Kröfu þeirra var hafnað. ECC í Hollandi tók við málinu og sendi það til ECC á Íslandi sem óskaði eftir ákvörðun Samgöngustofu  í málinu.  Nokkru síðar var gefin út ákvörðun þess efnis að flugfélagið skyldi greiða hverjum kvartanda 400 evrur í bætur vegna seinkunarinnar.  Bæturnar voru greiddar um ári eftir ferðalagið eða eftir að þriggja mánaða kærufrestur flugfélagsins rann út.


Yfirbókun í flug

Írsk kona varð fyrir því í að henni var neitað um far með íslensku flugfélagi vegna yfirbókunar.  Konunni var séð fyrir nýju flugi daginn eftir ásamt gistingu meðan beðið var. Konan margkvartaði við flugfélagið í síma, með tölvupósti og bréfpósti og óskaði eftir skaðabótum samkvæmt reglugerð um réttindi flugfarþega en var aðeins boðin inneign fyrir tvo í nýtt flug með félaginu sem konan vildi ekki þiggja, enda ekki á hverjum degi að bóka flug með íslensku félagi og ennfremur átti hún rétt á skaðabótum upp á 400 evrur. Í hátt á annað ár eða reyndi hún að fá umræddar bætur greiddar en án árangurs.  Leitaði hún því til ECC í sínu heimalandi sem sendi málið til ECC-Íslands.  Eftir milligöngu ECC fékk konan bæturnar loks greiddar tveimur árum eftir að henni var neitað um far!