Allar reynslusögur

Hurð fýkur upp

Pólskur ferðamaður leigði bílaleigubíl á ferðalagi sínu á Íslandi. Hann taldi svo að skil bílsins hefðu farið fram án nokkurra athugasemda frá bílaleigunni. Næsta dag hafði bílaleigan samband við ferðamanninn og tjáði honum að skemmdir hefðu fundist á bifreiðinni, en svo virtist sem hurð bifreiðarinnar hefði fokið upp. Þar sem ferðamaðurinn þurfti að ná flugi gat hann ekki verið viðstaddur tjónamatið og greiddi fyrirfram um 400.000 kr., en bílaleigan lofaði að endurgreiða honum ef raunverulegur viðgerðarkostnaður væri lægri. Bílaleigan sendi svo ferðamanninum upplýsingar um áætlaðan viðgerðarkostnað en þar kom fram bifreið af annarri tegund en þeirri sem ferðamaðurinn leigði. Taldi ferðamaðurinn því að ekki væri um rétta áætlun að ræða og leitaði til ECC-netsins. ECC á Íslandi óskaði eftir upplýsingum um lokaviðgerðarkostnað á bílaleigubílnum þegar viðgerð hefði verið framkvæmd og kom þá í ljós að um nokkuð lægri upphæð var að ræða en ferðamaðurinn hafði greitt fyrirfram. Hann fékk því endurgreiddar tæplega 150.000 kr.


Týnd taska

Sænskur ferðamaður leitaði eftir aðstoð ECC-netsins vegna tapaðs farangurs. Ferðamaðurinn flaug frá Keflavík til Orlando í Bandaríkjunum en ferðataskan hans skilaði sér ekki fyrr en seint og síðar meir þegar hann var kominn aftur heim til Svíþjóðar. Vegna þessa varð hann fyrir ýmsum aukakostnaði, sem tryggingarfélag hans bætti að mestu en eftir stóðu ýmsir kostnaðarliðir sem tryggingarnar bættu ekki. Eftir að ECC á Íslandi hafði samband við flugfélagið kom í ljós að svo virtist sem taskan hefði aldrei verið innrituð til flugfélagsins og ferðamaðurinn hafði enga kvittun fyrir töskunni. Flugfélagið vildi þó leysa málið á farsælan hátt og bauð að greiða símakostnað upp á rúmar 30.000 kr., en annan kostnað fékk ferðamaðurinn að mestu greiddan frá tryggingarfélagi sínu.


Gjaldþrot bílaleigu

Franskur ferðamaður hafði samband við ECC í Frakklandi vegna íslenskrar bílaleigu. Ferðamaðurinn bókaði bílaleigubíl á netinu í maímánuði og greiddi þá um 300.000 krónur fyrir leiguna. Þegar ferðamaðurinn mætti á bílaleiguna í lok júlímánaðar og ætlaði að nálgast bílinn var fyrirtækið lokað og enginn starfsmaður á staðnum, en jafnframt var búið að loka símanúmeri fyrirtækisins. Ferðamaðurinn óskaði eftir aðstoð ECC-netsins við að fá endurgreitt. ECC á Íslandi reyndi  að ná sambandi við fyrirtækið en ekki var svarað í síma og öll bréf sem sem bílaleigunni voru send voru endursend. Við nánari skoðun kom í ljós að fyrirtækið hafði verið úrskurðað gjaldþrota fjórum dögum áður en ferðamaðurinn bókaði bíleigubílinn í maí. ECC setti sig þá í samband við skiptastjóra þrotabúsins og endaði með því að ferðamaðurinn fékk endurgreitt. 


Franskan ferðamann vantar gögn

Franskur ferðamaður lenti í tjóni á bílaleigubíl hér á landi. Engin ágreiningur var um að hann hefði valdið tjóninu, en bílaleigan rukkaði hann um 290.000 kr. og ætlaði svo að endurgreiða honum mismuninn á þeirri upphæð og raunverulegum viðgerðarkostnaði og senda honum viðgerðarreikninginn. Nokkru síðar endurgreiddi bílaleigan ferðamanninum um 72.000 kr. án þess að láta ferðamanninn fá afrit af viðgerðarreikningnum og leitaði hann því til ECC-netsins. Eftir að ECC á Íslandi hafði samband við bílaleiguna fékk ferðamaðurinn afrit af lokaviðgerðarreikningnum, en hann þurfti á honum að halda til að fá endurgreitt á grundvelli tryggingar sem hann var með. 


Kostnaður vegna biðar eftir flugi

Tveir breskir ferðamenn áttu bókað flug frá Keflavík til London en því flugi var aflýst og flugfélagið endurbókaði ferðamennina með öðru flugi sólarhring síðar. Það vildi þó ekki betur til en svo að mistök áttu sér stað í endurbókuninni þannig að þeir komust ekki heldur með seinna fluginu. Flugfélagið bauð þeim annað flug sólarhring seinna, en þar sem ferðamennirnir höfðu ekki tök á að bíða lengur neyddust þeir til að kaupa flug með öðru flugfélagi síðar um daginn. Vegna aflýsingarinnar urðu þeir fyrir ýmsum aukakostnaði, svo sem hótel- og fæðiskostnaði auk kostnaðar vegna bílaleigu. Ferðamennirnir leituðu til ECC-netsins eftir aðstoð við að fá þennan kostnað endurgreiddan. Flugfélagið vildi ekki í upphafi fallast á að því  bæri að greiða alla kröfu ferðamannanna, en eftir milligöngu ECC á Íslandi, sem vísaði m.a. í ákvarðanir Samgöngustofu máli sínu til stuðnings, fengu ferðamennirnir endurgreiddan útlagðan kostnað sem nam um 278 evrum, endurgreiðslu ónotaðra flugmiða að upphæð 205 evrur ásamt því að fá staðlaðar skaðabætur vegna seinkunarinnar í samræmi við Evrópureglugerð um réttindi flugfarþega að upphæð 400 evrur á farþega, eða 800 evrur samtals. Samtals fengu bresku ferðamennirnir því, eins og þeir áttu rétt á, tæpar 190.000 krónur frá flugfélaginu eftir milligöngu ECC á Íslandi. 


Bílaleigubíll afpantaður

Franskur ferðamaður pantaði bílaleigubíl í gegnum bókunarsíðu leigumiðlunar á netinu og hugðist nota hann á ferðalagi sínu um Ísland. Hann þurfti að greiða hluta leigunnar strax til bókunarsíðunnar en samkvæmt skilmálum var heimilt að afpanta leigu þar til sólarhring áður en leigutími skyldi hefjast og fá leiguna endurgreidda að fullu. Svo fór að ferðamaðurinn þurfti að afpanta leiguna áður en sá frestur sem afbókunarskilmálinn kvað á um rann út og fór hann fram á að endurgreiðslu. Þar sem tilraunir ferðamannsins til að fá endurgreitt báru ekki árangur leitaði hann til ECC-netsins. Eftir að starfsmenn ECC á Íslandi höfðu samband við leigumiðlunina fékk hann loks fulla endurgreiðslu.