Lög um neytendakaup

Lög um neytendakaup nr. 48/2003 eru tvímælalaust þau lög sem varða okkur hvað mestu í daglegu lífi. Þannig gerum við oft á dag samninga sem falla undir lögin; þegar við kaupum pylsupakka í Bónus eða kókflösku úti í sjoppu eru það neytendakaup í skilningi laganna. Neytendakaupalögin eiga einnig við um samninga sem fólk gerir sjaldnar, eins og kaup á bifreiðum, tölvum, farsímum, ísskápum og sófasettum. Yfirleitt gengur allt að óskum og við spáum kannski ekki mikið í löggjöfina að baki kaupunum. Hins vegar er gott að kannast við lögin og þá réttarvernd sem þau veita neytendum þegar eitthvað kemur upp á.

Um hvað gilda lögin?

Lög um neytendakaup gilda um kaup á alls kyns lausafé, kaup á kröfum og réttindum, afhendingu á vatni og pöntun hlutar sem seljandi á að búa til. Mikilvægt er að hafa í huga að lögin gilda aðeins þegar neytandi er kaupandi og seljandi hefur atvinnu af sölunni. Þannig eru það ekki neytendakaup þegar einstaklingur kaupir notað sófasett eða gönguskíði af öðrum einstaklingi heldur gilda önnur lög um slík kaup. Oft geta skilin milli þessa þó verið óljós, eins og má t.d. sjá af þeim fjölmörgu sölusíðum, t.a.m. á Facebook, sem í raun eru reknar í atvinnuskyni, en seljendur virðast oft ekki átta sig á þeim skyldum sem þar með hvíla á þeim.

Þá er það skilyrði fyrir því að lögin gildi að kaupandinn sé neytandi, þ.e. stundi kaupin utan atvinnustarfsemi sinnar. Tannlæknir sem kaupir sófasett til að nota heima hjá sér er þannig neytandi en kaupi hann sófasett til að nota í biðstofu tannlæknastofunnar er hann ekki neytandi. Þá þýðir lítið fyrir þá einstaklinga sem freistast til skrá persónuleg kaup á kennitölu fyrirtækis, til að nýta reikninginn í bókhaldinu og fá virðisaukaskatt endurgreiddan, að vísa í neytendarétt og lög um neytendakaup. Þegar kaup eru skráð á fyrirtæki er einfaldlega ekki um neytendakaup að ræða. Þá er rétt að hafa í huga að lögin eru ófrávíkjanleg, þ.e. ekki má semja um, eða setja í skilmála, kjör sem veita neytendum verri stöðu en kveðið er á um í lögunum.

Hvað er galli?

Það álitaefni sem oftast kemur upp við neytendakaup er hvort varan sem keypt var er gölluð en eiginleikum söluhlutar og galla er lýst í 15. og 16. gr. laganna. Þannig telst söluhlutur t.d. vera gallaður ef hann er ekki í samræmi við lýsingu í kaupsamningi eða lýsingu seljanda við markaðssetningu, ef hann hentar ekki í sama tilgangi og sambærilegir hlutir, ef hann hefur ekki þá eiginleika sem neytandi mátti vænta (t.d. hvað varðar endingu hans) og ef nauðsynlegar upplýsingar, t.d. um samsetningu og notkun, fylgja ekki. Þá er það einnig galli ef seljandi gefur ekki þær upplýsingar við kaupin sem neytandi mátti ætla að hann fengi, og það hefur áhrif á kaupin. Það síðastnefnda kemur t.a.m. oft upp í bifreiðaviðskiptum, þ.e. að seljandi eða bílasala gefur ekki upplýsingar um ákveðna eiginleika eða atriði sem gera þarf við. Þá ber seljanda vitaskuld að afhenda hlut á umsömdum tíma og standi hann ekki við það getur neytandi beitt ákveðnum vanefndaúrræðum.

Ef neytandi vissi um ákveðna eiginleika við kaupin getur hann ekki haldið því fram síðar að um galla sé að ræða. Þetta felur í sér að sé t.a.m. dælduð þvottavél seld með afslætti og sérstaklega bent á að sá útlitsgalli sé ástæða afsláttarins getur neytandinn ekki komið síðar til seljanda og krafist afsláttar eða annarra úrbóta vegna hans.

Oft, og þegar um flestar almennar neysluvörur er að ræða, er nokkuð augljóst hvort um galla er að ræða eður ei. Í sumum tilvikum, sér í lagi þegar um „flóknari“ vörur er að ræða, og seljandi viðurkennir ekki gallann, getur neytandi þó þurft að fá álit eða mat sérfróðra aðila til að sýna fram á að um galla sé að ræða.

Hvenær á að tilkynna um galla?

Eftir að neytandi uppgötvar að vara er gölluð á hann að tilkynna seljanda það eins fljótt og hægt er. Fresturinn til að láta vita er þó aldrei skemmri en tveir mánuðir frá því að neytandinn vissi um gallann, en eftir það getur komið til skoðunar hvort neytandi hafi glatað rétti sínum vegna tómlætis. Gott er að kvarta skriflega til að hægt sé að sýna fram á hvenær kvörtun var send.

Ef galli kemur fram innan sex mánaða frá því áhættan af söluhlut fluttist yfir til neytanda (sem er alla jafna við afhendingu) er almennt litið svo á að gallinn hafi verið til staðar við afhendingu. Í slíkum tilvikum er það því seljandinn sem þarf að sanna að söluhluturinn hafi ekki verið gallaður við kaupin.

Kvörtunarfrestur neytanda vegna galla á söluhlut er almennt tvö ár frá afhendingu. Eftir að tvö ár eru liðin getur neytandi því ekki lengur haldið því fram að hluturinn sé gallaður. Í lögunum er þó að finna ákveðna „fimm ára reglu“ sem felur það í sér að sé „söluhlut, eða hlutum hans, ætlaður verulega lengri endingartími en almennt gerist um söluhluti er frestur til að bera fyrir sig galla fimm ár“. Í lögunum kemur ekki skýrt fram hvers kyns hluti þessi lengri kvörtunarfrestur getur átt við um en þó er tekið fram í greinargerð með lögunum að rísi vafi skuli fimm ára reglan gilda. Kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa hefur talið að m.a. bifreiðar, húsgögn, ísskápar, þvottavélar, sjónvörp og tölvur geti fallið undir fimm ára regluna. Þó þarf í hverju tilviki að meta bæði hlutinn sem um ræðir, hvaða væntingar hafi verið rétt að gera til endingar hans og eðli gallans hverju sinni. Því er erfitt að gefa algildar leiðbeiningar um það í hvaða tilvikum fimm ára reglan gildir.

Kvörtunarfrestur eða ábyrgð?

Rétt er að hafa í huga að kvörtunarfrestur vegna galla og „ábyrgð“ er ekki það sama. Þannig er kveðið á um kvörtunarfrestinn í lögum sem segja til um ófrávíkjanleg réttindi neytenda en óheimilt er að gefa út „ábyrgðaryfirlýsingu“ nema hún veiti ríkari rétt en neytandi á samkvæmt lögum. Þannig getur seljandi ekki neitað að bæta úr galla á grundvelli einhvers sem kemur fram í ábyrgðaryfirlýsingu ef neytandi á lagalegan rétt á að fá bætt úr gallanum.

Réttur neytanda komi upp galli

Sé vara gölluð á neytandi almennt rétt milli þess að velja um viðgerð eða að fá nýjan hlut afhentan. Neytandi á þó ekki val milli þessara úrræða ef það hefur í för með sér ósanngjarnan kostnað fyrir seljanda eða fyrir hendi er hindrun sem seljandi ræður ekki við. Þetta þarf að meta í hverju tilviki. Úrbætur eða afhending nýs hlutar eiga svo ekki að hafa í för með sér kostnað eða verulegt óhagræði fyrir neytanda. Sé um stærri hluti að ræða þarf seljandi þannig t.a.m. að kosta flutning þeirra. Ef viðgerð eða ný afhending leiða til þess að neytandi þarf að vera án söluhlutar í meira en viku á hann svo alla jafna rétt á að fá sambærilegan lánshlut frá seljanda á meðan. Hér þarf þó að meta hvort slík krafa er sanngjörn og hversu mikinn kostnað og óhagræði slíkt lán hefur í för með sér fyrir seljanda. Þannig er t.a.m. eðlilegt að fá lánaðan farsíma ef viðgerð tekur meira en viku og eins ísskáp eða tölvu sem nýtt er við nám. Erfiðara væri hins vegar að halda fram kröfu um að fá lánaða laxveiðistöng vegna viðgerða í desember. Almennt á seljandi svo aðeins rétt á að gera tvisvar við sama galla með viðgerð eða nýrri afhendingu. Ef gallinn kemur enn upp í þriðja sinn koma því alla jafna önnur úrræði neytenda til skoðunar.

Ef ekki er hægt að gera við hlutinn eða afhenda nýjan getur neytandi svo farið fram á afslátt af kaupverðinu. Kæri neytandi sig ekki um afslátt, eða hluturinn er ónothæfur í gölluðu ástandi, getur neytandi svo rift kaupunum, nema gallinn sé óverulegur. Þegar kaupum er rift á neytandinn að skila söluhlutnum, en getur þurft að greiða hæfilegt endurgjald hafi hann haft veruleg not af hlutnum. Á móti á seljandi að skila kaupverðinu með vöxtum. Mat á þessum þáttum getur farið eftir eðli hlutarins og því hve langt er liðið frá kaupum, en alla jafna er það svo í framkvæmd að vextir og endurgjald vegna nota falla niður og báðir aðilar skila einfaldlega því sem þeir hafa móttekið.

Hafi gallinn svo leitt til tjóns fyrir neytanda getur hann til viðbótar krafist skaðabóta vegna þess. Þetta á einnig við um kostnað sem neytandi verður fyrir vegna tjónsins. Leiði þannig galli í þvottavél til þess að föt skemmist á neytandi rétt á skaðabótum vegna fatanna en einnig á hann rétt á endurgreiðslu  kostnaðar sem hann verður fyrir vegna gallans, t.a.m. ef þarf að kalla til fagmann til að meta gallann. 

ECC Flokkun: 
Vörur & þjónusta