Ef alferð fellur niður

Hver er réttur neytenda ef alferð fellur niður vegna verkfalla eða náttúruhamfara?

Aflýsi ferðasali alferð eiga neytendur rétt á að fá ferðina endurgreidda, eða fá aðra sambærilega ferð. Þetta gildir óháð því hver ástæðan fyrir aflýsingunni er, en þessi réttur farþega kemur skýrt fram í 9. gr. laga um alferðir. 

Ferðasali getur því ekki neitað að endurgreiða pakkaferð með vísan til þess að verkfall flugvallastarfsmanna teljist til óviðráðanlegra aðstæðna. Réttur til endurgreiðslu, sé ferð aflýst, er einfaldlega til staðar og skiptir þá ekki máli af hvaða ástæðu aflýsing stafar. Séu aðstæður óviðráðanlegar getur hins vegar komið til að farþegar eigi ekki rétt á bótum vegna tjóns sem þeir verða fyrir vegna aflýsingarinnar, eins og t.d. ef þeir hafa lagt út í kostnað vegna bólusetninga eða vegabréfsáritana, sem svo reynast óþarfar. Réttur neytenda til endurgreiðslu alferðar helgast af vanefnd ferðasala á að veita ferðina og þarf ferðasali að sæta því að endurgreiða kaupverðið og þá skiptir ekki máli af hvaða ástæðum vanefndin er sprottin. Því er mikilvægt að ferðasalar geri sér grein fyrir þeirri staðreynd að gerður er greinarmunur á endurgreiðslu alferðar og á skaðabótum vegna aflýsingar á alferð.

Neytendasamtökin, sem hýsa ECC Ísland, hafa barist fyrir því að ferðasalar fari að ofangreindum reglum t.a.m. sendu samtökin ágreiningsmál af þessu tagi til ákvörðunar Neytendastofu.  Þar hélt ferðasali því fram að þar sem alferð féll niður vegna eldgoss (óviðráðanlegar aðstæður) væri honum ekki skylt að endurgreiða farkaupum verð ferðarinnar. Neytendastofa féllst ekki á þau rök og tók undir með Neytendasamtökunum um að skylt væri að endurgreiða ferðina. Í kjölfarið fóru tvö sams konar mál fyrir Úrskurðarnefnd í ferðamálum sem komst að sömu niðurstöðu og gerði ferðasala að endurgreiða ferðina.  Rétt er að árétta að í þessum tilvikum eiga neytendur rétt á endurgreiðslu og þurfa því ekki að sætta sig við að fá einungis inneignarnótu hjá viðkomandi fyrirtæki.

ECC Flokkun: 
Ferðalög