Deilihagkerfið

Deilihagkerfið er elsta hagkerfi í heimi, enda peningar í raun tiltölulega nýleg uppfinning. Deilihagkerfið er viðskiptakerfi sem byggir á skiptum eða samnýtingu verðmæta, og yfirleitt er um „jafningjaviðskipti“ (peer-to-peer) að ræða, en ekki það að „salan“ fari fram í atvinnuskyni. Eftir að peningar komust í almenna umferð ruddi séreignarstefnan sér sífellt harðar fram með þeim afleiðingum að ofneysla, sér í lagi á Vesturlöndum, hefur haft skelfileg áhrif á takmarkaðar auðlindir jarðarinnar. En í kjölfar hrunsins, og ekki síður vegna örrar tækniþróunar, er deilihagkerfið að ryðja sér til rúms á ný. Svokallaðir endurdreifingarmarkaðir eru angi af deilihagkerfinu og sveitarfélög víða um heim eru farin að bjóða upp á samnýtingu hjóla og jafnvel bifreiða. Kostir samnýtingar virðast augljósir, ekki bara efnahagslegt hagræði fyrir hvern og einn, heldur einnig jákvæð umhverfisáhrif. Þurfum við endilega að „eiga“ allt sem við notum? Gætum við ekki samnýtt miklu meira? Eins og hálftóma bíla? Reiðhjól sem dregin eru fram tvisvar-þrisvar á ári? Sauma- og sláttuvélar? Og jafnvel matvæli? En eru þá einhverjir gallar við deilihagkerfið? Er kannski um ofnotkun – og jafnvel misnotkun – hugtaksins að ræða? 

Ókunnugi vinur minn

Með samfélagsmiðlum á borð við Facebook, svo ekki sé talað um vefsíður sem sérstaklega eru settar upp sem markaðstæki eins og Bland og Ebay, auk sérstakra deilihagkerfissíðna eins og Couchsurfing og Samferða, getum við komist í samband við hvern sem er, hvar sem er á ótrúlega skömmum tíma og með lítilli fyrirhöfn. Því er auðvelt að finna einhvern sem á það sem okkur vanhagar um eða vill fá að nýta sér það sem við eigum. Meðan möguleikarnir til samnýtingar takmörkuðust fyrir nokkrum árum við það að banka upp á í næsta húsi og biðja um bolla af hveiti eru þeir nú nánast óþrjótandi.

Deilihagkerfið í sinni hreinustu mynd gengur út á samnýtingu, sem stuðlar aftur að minni sóun. Það gengur ekki út á að neinn hagnist beint peningalega heldur samnýtir fólk einfaldlega verðmæti sem ella eru kannski illa nýtt.

Samnýting sófa og bifreiða

Dæmi um þetta er samfélagssíðan Couchsurfing.com, en um 10 milljónir manna um allan heim eru skráðir á þeirri síðu, þar af um 5.000, misjafnlega virkir þó, sem bjóða upp á gistingu á höfuðborgarsvæðinu. Hugmyndin gengur út á að þeir sem eiga kannski illa nýtta sófa, eða jafnvel herbergi, bjóða „sófavinum“ að gista hjá sér. Gestgjafarnir fá í staðinn að kynnast nýju fólki frá öðrum löndum, læra um siði þess og jafnvel smakka þjóðarrétti sem gestirnir elda. Þá er ekki óalgengt að gestir komi með súkkulaði, rauðvín eða annað góðgæti frá heimalandinu. Gestirnir fá svo allt aðra innsýn í samfélagið en þeir mundu gera með því að gista á hótelum eða gistihúsum og er þannig í raun um ákveðinn lífsstíl að ræða. Þannig er gert ráð fyrir að gestirnir spari án þess að gestgjafarnir verði fyrir tilkostnaði.

Þá ganga einnig fjölmargar vefsíður út á íbúðaskipti. Alla jafna skiptist fólk þá einfaldlega á íbúðum, og jafnvel bílum, án þess að önnur greiðsla komi til. Hugmyndin er að auðvelda fólki að spara í fríinu og að nýta íbúðir sem ella stæðu auðar.

Annað dæmi er samnýting bílferða, og má þar nefna vefsíðuna Samferda.is. Þar skráir fólk sig einfaldlega ef það vantar far eða er á leiðinni eitthvert og er með pláss í bílnum. Yfirleitt  er um lengri leiðir að ræða, t.a.m. Reykjavík-Akureyri. Hugmyndin er þá að samferðamenn sameinist um kostnað sem hlýst af bílferðinni, eins og eldsneytiskostnað, en ekki er gert ráð fyrir að neinn hagnist sérstaklega. Þannig fær bíleigandinn upp í bensínkostnað og sá sem fær farið sparar á því að þurfa ekki að fara á eigin bíl, leigja bíl eða kaupa flug eða rútuferð.

Svo verður hver og einn bara að eiga við sig hvort hann vill leyfa ókunnugu fólki að gista á heimili sínu eða ferðast í bílnum sínum. Það er hæpið að stórt hlutfall þeirra sem við hittum á lífsleiðinni séu raðmorðingjar eða þaðan af verra en vissulega er rétt að hafa ákveðinn vara á, t.d. með því að ganga úr skugga um að viðkomandi sé sá sem hann segist vera. Á sófavinasíðunni er t.a.m. hægt að lesa umsagnir annarra notenda um viðkomandi auk þess sem hægt er að „kynnast“ fólki betur á Facebook, Skype eða með öðrum samskiptamiðlum áður en komið er að því að hittast.

Íbúðir og bílar til leigu

Þegar deilihagkerfið ber á góma er nær alltaf minnst á síðuna Airbnb.com. Þar geta einstaklingar skráð hús sín, íbúðir eða bara einstök herbergi í íbúð sinni til leigu til ferðamanna. Nú eru tæplega 1.400 herbergi eða íbúðir auglýst til leigu í Reykjavík og er leiguverð þeirra ódýrustu 15 evrur á nóttu en dýrustu eignirnar leigjast út á ríflega 1.000 evrur. Þá er nokkuð um að sömu einstaklingar leigi út margar eignir á Airbnb. Flóra eigna á Airbnb er því afar fjölbreytt, í sumum tilvikum er um það að ræða að „gestgjafar“ vilja einfaldlega nýta betur einstök herbergi í eign sinni, og kynnast nýju fólki í leiðinni, eða leyfa öðrum að nýta eignina meðan þeir eru sjálfir í sumarleyfi, en í öðrum tilvikum getur verið um mun umfangsmeiri og ópersónulegri viðskipti að ræða. Auk Airbnb, sem nú er einnig á íslensku, finnast fleiri sambærilegar síður, t.d. homeaway.com.

Caritas.is er íslensk síða þar sem fólk getur leigt út fjölskyldubílinn. Í raun er um einkaleigu að ræða, þar sem einstaklingar leigja út bifreið sína með milligöngu leigumiðlunar. Af nokkuð öðrum toga eru svo alls kyns leigubílaþjónustur, en Uber, sem enn sem komið er starfar ekki hér á landi, er einna stærst þeirra. Hér á landi eru hins vegar einnig starfandi nokkurs konar leigubílaþjónustur, eins og t.a.m. Skutlarar, sem eru með fjölmennan hóp á Facebook, þar sem fólk auglýsir eftir fari á ákveðna staði og ökumenn láta vita hvar þeir verða á ferðinni.

Þetta er allt deili

Umræður um deilihagkerfið hafa sætt nokkurri gagnrýni og því verið haldið fram að fyrirtæki sem kenna sig við deilingu verðmæta hafi gjaldfellt hugtakið. Þannig sé „deiliþvottur“ í raun „grænþvottur“ nútímans, en þess er t.a.m. skemmst að minnast að mörg fyrirtæki stunduðu kolefnisjöfnun og bílar sem ganga fyrir hefðbundnu eldsneyti voru jafnvel markaðssettir sem „grænir“. Þannig sé nú komið fyrir „deilihagkerfinu“; t.d. sé Airbnb hrein og klár leigumiðlun sem snúist ekki um deilingu verðmæta heldur tekjuöflun og Uber og aðrar leigubílaþjónustur séu bara leyfislaus starfsemi og hafi þannig lítið með raunverulega deilingu eða samnýtingu verðmæta að gera. Það sé í sjálfu sér mjög jákvætt að fólk sé reiðubúið að deila eigum sínum með öðrum en gera þurfi skýran greinarmun á raunverulegu „deilihagkerfi“ og gróðastarfsemi.

Eru stjórnvöld með á nótunum?

Þó deila megi um hvort síður á borð við Airbnb og Uber séu í raun deilihagkerfissíður er það væntanlega óumdeilt að lög og reglur taka lítið tillit til slíkrar starfsemi. Það þarf ekki leyfi til að bjóða nýjum vinum að gista í sófanum eða bjóða einhverjum far til Akureyrar gegn þátttöku í bensínkostnaði. Þá er það ekki sölustarfsemi í atvinnuskyni að selja t.a.m. gamla fjölskyldubílinn eða sófann á Bland eða Facebook. Ef maður selur hins vegar tíu bíla og kaupir jafnvel sófa erlendis frá eða af vinum og vandamönnum í þeim tilgangi að selja á samfélagsmiðlum er orðið um atvinnustarfsemi að ræða. Slík sala er þá skattskyld og jafnframt gilda lög um neytendakaup (sem veita kaupanda ríkari rétt en ella), en ekki lausafjárkaup, um viðskiptin. Þá þarf vissulega tilskilin leyfi til að reka leigubílastöð. Oft geta mörkin verið óljós og er það e.t.v. eitthvað sem stjórnvöld þurfa að bregðast við.

Um gististaði, þ.e. þegar gisting er boðin gegn endurgjaldi, gilda svo ákveðin lög og og reglur. Jafnvel þó um sé að ræða gistingu á heimili leigusala, eins og t.a.m. ef einstök herbergi innan íbúðar eru leigð út, gilda ákveðnar reglur. Ferli slíkrar leyfisveitingar hefur lengst af verið nokkuð flókið og óárennilegt en t.a.m. hefur þurft að afla starfsleyfis, sýna fram á að viðkomandi sé með virðisaukaskattsnúmer, leggja fram teikningu af húsnæði o.s.frv., auk þess sem umsóknin er svo send til umsagnar ýmissa aðila, eins og slökkviliðs og lögreglu. Gera má ráð fyrir að margir þeirra sem leigja út gistirými á samfélagsmiðlum og sérstökum deilisíðum hafi ekki tilskilin leyfi til slíkrar starfsemi. Þó er ljóst að slík starfsemi er komin til að vera, en þess má geta að á árunum 2005-2013 fjórtánfaldaðist fjöldi gistinátta ferðamanna í íbúðarhúsnæði meðan fjöldi gistinátta á hótelum tvöfaldaðist. Það vekur þó ákveðinn ugg að um leyfis- og eftirlitslausa starfsemi geti verið að ræða sem uppfyllir jafnvel ekki öryggiskröfur, auk þess sem gera má ráð fyrir að skatttekjur vegna slíkrar leigu skili sér ekki að fullu. Þegar þetta er skrifað er raunar til meðferðar Alþingis lagafrumvarp sem miða á að því að einfalda lög og reglur þegar um heimagistingu er að ræða og standa því vonir til að eftirleiðis verði fólki kleift að stunda slíka starfsemi á löglegan en einfaldan hátt. 

ECC Flokkun: 
Bílaleiga / Ferðalög / Kaup á netinu / Vörur & þjónusta