Ábyrgð og ábyrgð er ekki það sama!

Þegar neytendur lenda í því að kaupa gallaða vöru og fara í kjölfarið fram á einhvers konar úrbætur; viðgerð, nýja vöru eða endurgreiðslu vegna þess, er jafnan talað um að vara sé í „ábyrgð“. Það sem við köllum í daglegu tali ábyrgð er þó iðulega bara lögbundinn réttur neytandans til að fá ógallaða vöru, en ekki er um það að ræða að seljandi eða framleiðandi hafi tekið á sig sérstaka ábyrgð vegna vörunnar.

Lögbundinn kvörtunarfrestur

Sé vara (hér getur verið um að ræða allt frá sokkapari og upp í lúxusbifreiðar) gölluð á neytandi rétt á að fá gert við hana, fá nýja vöru í staðinn, fá afslátt af kaupverðinu eða hætta við kaupin. Neytandinn getur kvartað vegna galla og krafist úrbóta í allt að tvö ár (eða fimm ár ef um er að ræða hluti sem ætlaður er verulega lengri endingartími en almennt gerist) frá kaupunum. Eftir að sex mánuðir eru liðnir frá kaupum þarf neytandinn þó að sýna fram á að gallinn hafi verið til staðar við afhendingu vörunnar, og hann þarf alltaf að tilkynna um gallann án ástæðulauss dráttar. Um galla og úrræði neytenda vegna þeirra er fjallað ítarlega í lögum um neytendakaup, en um ófrávíkjanlegan rétt neytenda er að ræða en ekki „ábyrgð“ sem seljandi hefur ákveðið að veita sérstaklega. Lagalegan rétt neytenda til að fá bætt úr galla á vöru má seljandi því ekki skilyrða með neinum hætti.

Ábyrgð seljanda

Um sérstaka „ábyrgð“ seljanda, en t.a.m. getur verið um að ræða tíu ára ábyrgð á lakki bifreiða, fimmtán ára ábyrgð á dýnugormum o.s.frv., er svo fjallað í lögum nr. 57/2005. Þar segir að seljandi megi ekki veita sérstaka ábyrgð nema hún veiti meiri rétt en kaupandi á samkvæmt lögum. Lögbundinn réttur neytanda til að fá bætt úr galla er því ekki sérstök „ábyrgð“ seljanda heldur er „ábyrgð“ loforð um að kaupandinn fái meiri rétt en hann á lagalega kröfu á. Ef seljandi tekur svo sérstaka ábyrgð á vöru sem hann selur þarf hann að upplýsa neytanda um gildissvið ábyrgðarinnar og hvaða skilyrði eru sett fyrir því að neytandi geti fengið úrbætur á grundvelli ábyrgðarinnar. Að því marki sem slík skilyrði teljast ekki ósanngjörn getur seljandi því sett ákveðin skilyrði fyrir því að ábyrgðin gildi. Virði neytandinn svo ekki slík skilyrði getur það valdið því að „ábyrgð“ falli niður, en eftir sem áður er lögbundinn réttur neytandans til úrbóta vegna galla til staðar.

Þjónustuskoðanir bifreiðaumboða

Þótt hlutur bili, jafnvel eftir stutta notkun, er ekki sjálfgefið að um galla í skilningi laga um neytendakaup sé að ræða. Þannig getur slæleg meðferð neytenda og ónógt viðhald valdið því að hlutur bili. Þegar kemur að bifreiðum er þannig t.a.m. sjálfsagt að neytendur fari eftir leiðbeiningum framleiðenda hvað varðar viðhald og láti t.d. smyrja bifreiðar sínar reglulega. Undanfarið hefur hins vegar færst í vöxt að bílaumboð hafni því að bæta úr galla með þeim röksemdum að eigandinn hafi ekki mætt með bifreiðina í svokallaðar þjónustuskoðanir, sem eru þá skilyrði „ábyrgðar“. Hafa deilumál sem snúast um það að bílaumboð hafni því að bæta úr galla á grundvelli slíkrar vanrækslu ítrekað komið á borð NS og kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa. Er því rétt að árétta að ekki er heimilt að binda lagalegan rétt neytenda til að fá bætt úr galla því skilyrði að mætt sé í slíkar skoðanir. Í áliti kærunefndarinnar í máli 26/2012, en í málinu bar seljandi því fyrir sig að ekki hefði verið farið með bifreiðina í sérstakar þjónustuskoðanir, segir m.a. um þetta: „…álitsbeiðandi lét smyrja bifreið sína reglulega. Er það því mat kærunefndarinnar að sá galli sem fram hefur komið á vél bifreiðarinnar verði ekki rakinn til þess að álitsbeiðandi hafi ekki sinnt nægilegu viðhaldi á bifreiðinni. Þá er ekki fallist á að seljandi geti skyldað álitsbeiðanda til þess að fara með bifreið sína í þjónustuskoðanir hjá seljanda og að öðrum kosti neitað að bæta úr göllum sem gætu verið á bifreiðinni, enda væri slíkt í andstöðu við 1. mgr. 3. gr. laga um neytendakaup…“.

ECC Flokkun: 
Vörur & þjónusta