Kaup á netinu - spurningar & svör

Reglur um gallaðar vörur eru þær sömu, hvort sem vara er seld fullu verði eða á útsölu. Þegar kemur að réttinum til að kvarta vegna galla og krefjast úrbóta eru réttindi neytenda því þau sömu, og seljandi getur ekki „afsakað“ galla með því að vara hafi verið svo ódýr. Hafi verðlækkun hins vegar verið vegna galla og það tekið fram við söluna, að um t.d. verðlækkun vegna útlitsgalla sé að ræða þá er ekki hægt að krefjast úrbóta vegna þess galla síðar meir. Hvað varðar skil á ógölluðum vörum þá er engin skylda á verslun að taka við ógallaðri vöru af því kaupandann langar ekki lengur í hana, heldur gilda um skilarétt reglur sem verslanir setja sér sjálfar. Fyrir kaup er gott að kynna sér reglur verslunarinnar en almenna reglan er sú að verslanir heimila engin skil á útsöluvörum. Sé um netverslun að ræða gilda svo sérstakar reglur um vöruskil, en þegar vara er keypt í gegnum netið hafa neytendur fjórtán daga frá afhendingu til að hætta við kaupin.


Já, að mestu leyti, flest þeirra íslensku laga sem fjalla um neytendavernd eru byggð á Evróputilskipunum og reglugerðum, sem gilda þá um allt Evrópska efnahagssvæðið. Hins vegar eru sumar þessara Evrópuregla svokallaðar lágmarksreglur svo aðildarríkjunum er frjálst að ganga lengra í neytendavernd en reglurnar kveða á um. Flest grundvallarréttindi, eins og reglan um tveggja ára kvörtunarfrest og úrræði neytenda vegna galla, reglur um kaup á netinu og rétt neytenda til að hætta við kaupin, auk reglna um það hvað teljist óréttmætir viðskiptahættir eru því eins í öllum löndunum. Sama má segja um reglur um réttindi flugfarþega og hámarksverð á reikisímtölum. 


Algengt er að fólk fái tilkynningar um að það hafi unnið himinháar upphæðir í happdrættum, fengið arf frá fjarskyldum ættingja, eða er beðið um að aðstoða afríska prinsa við að koma milljörðum úr landi. Í öllum tilvikum er um svikamyllur að ræða. Þegar fólk svarar þessum póstum er svarið iðulega það að það þurfi að senda bara örlitla upphæð vegna skatta, bankakostnaðar, til að múta embættismönnum o.s.frv. Síðar er beðið um meiri pening og meiri, en aldrei skilar stóri vinningurinn sér. Gott er að hafa í huga að ef eitthvað er of gott til að vera satt þá er það yfirleitt raunin! Ef þú borgar ekki fyrir happdrættismiðann færðu heldur engan vinning. Og af hverju ætti einhver að velja einmitt þig til að aðstoða við flutning milljarða frá Nígeríu? Mikilvægt er að gæta þess að svara aldrei póstum af þessu tagi enda getur þá verið erfitt að losna við svikahrappana.


Áður en þú kaupir eitthvað á netinu gakktu þá úr skugga um að allar upplýsingar um fyrirtækið, á við nafn þess, heimilisfang og tölvupóstfang, séu aðgengilegar á heimasíðunni. Kannaðu hvað aðrir segja um seljandann, t.d. með því að „gúggla“ hann og lesa um reynslu annarra. Lestu skilmála seljanda fyrir kaupunum vel, sérstaklega það sem segir um réttinn til að hætta við kaupin. Vertu viss um að greiðsla fari fram á öruggri síðu, leitaðu eftir litlum lás sem á að sjást hægra megin á síðunni (ef þú opnar hann á öryggisvottorð að birtast). Gættu líka að því að slóðin á greiðslusíðunni byrji á https:// en ekki http/.


Já, samkvæmt íslenskum lögum skuldbinda kaup á netinu neytanda ekki fyrr en fjórtán dögum (talið frá því neytandinn fær vöruna en þó ekki síðar en á sjötta degi eftir að seljandi uppfyllir upplýsingaskyldu sína) eftir að samningur um kaupin er gerður (þessi réttur er til staðar á öllu evrópska efnahagssvæðinu). Neytandinn getur því hætt við kaupin jafnvel þó ekkert sé í sjálfu sér að vörunni. Ákveðnar undantekningar eru svo á því að hægt sé að hætta við kaupin, eins og t.d. ef innsigli á myndböndum, dvd, cd, eða hugbúnaði hefur verið rofið eða ef varan er sérpöntuð eða sniðin sérstaklega að neytandanum.


Ef vara er keypt af einstaklingi gilda lög um húsgöngu- og fjarsölusamninga ekki. Rétturinn til að falla frá samningi án ástæðu (þ.e. ef varan er ógölluð) er því ekki til staðar. Þá gilda önnur lög (lausafjárkaup) um viðskipti milli einstaklinga en um viðskipti milli einstaklinga og fyrirtækja (neytendakaup). Sé gölluð vara keypt af einstaklingi á kaupandinn þó ákveðinn rétt, ef hlutur er gallaður getur kaupandi því krafist viðgerðar, nýrrar afhendingar, afsláttar eða riftunar. Sérstaklega mikilvægt er, sé vara keypt af einstaklingi á netinu, að hafa allar upplýsingar um seljanda (nafn, heimilisfang, netfang) svo hægt sé að hafa samband við hann ef eitthvað fer úrskeiðis. Einnig er mikilvægt að fá sem mestar upplýsingar um vöruna áður en kaup fara fram.


Það er seljandinn sem er ábyrgur fyrir því að senda hlutinn til þín. Ef það eru einhver vandræði með sendinguna er það seljandinn sjálfur sem ætti að hafa samband við póstþjónustuna og sýna fram á að varan hafi í raun verið send. Ef seljandinn getur ekki sýnt fram á það ætti hann að senda þér vöruna aftur eða endurgreiða þér hana.


Ef þú hefur greitt fyrir vöru með kreditkorti en færð vöruna ekki afhenta getur þú borið fram skriflega athugasemd til þíns kortafyrirtækis eða banka, en það skal gert innan 90 daga frá því að búast mátti við afhendingu. Kortafyrirtækið leitar þá eftir sönnun frá söluaðila um hvort varan hafi verið send, en póstferilsskrá á að vera til yfir alla böggla sem sendir eru. Ef söluaðili getur ekki sannað að sendingin hafi átt sér stað er færslan bakfærð.


Þegar viðgerð, eða ný afhending, vegna galla fer fram á það að gerast án kostnaðar fyrir neytandann. Það þýðir að sé um sendingarkostnað að ræða þá á seljandinn að greiða hann. Þó er eðlilegt að neytandinn komi sjálfur með vöru í viðgerð ef um stutta vegalengd er að ræða. Þurfi hins vegar að senda vöruna um lengri leið, eða með sendibifreið, þarf neytandinn mögulega að leggja út fyrir kostnaðinum en ætti að krefja seljanda um endurgreiðslu hans. Því er mikilvægt að halda utan um allar nótur vegna flutningskostnaðar. Komi hins vegar í ljós að ekki er um galla að ræða þarf neytandinn sjálfur að borga kostnað vegna flutnings.


Almennur kvörtunarfrestur, og sá sem er í gildi um mestalla Evrópu, er tvö ár. Það þýðir að ef galli kemur upp innan tveggja ára frá afhendingu hlutar getur neytandinn kvartað vegna galla og borið fyrir sig gallúrræði á borð við þau að krefjast viðgerðar eða nýs hlutar. Á Íslandi er svo í gildi sérstök fimm ára regla sem felur það í að sé söluhlut ætlaður verulega lengri endingartími en almennt gerist (bílar, ísskápar, þvottavélar o.s.frv.) hefur neytandinn fimm ár frá afhendingu til að kvarta. Neytandanum er þó skylt að bera fram kvörtun sína eins fljótt og hægt er, en annars getur hann glatað rétti sínum vegna tómlætis


Tengdar fréttir

Alþjóðadagur neytendaréttar

Þann 15. mars á hverju ári er haldinn alþjóðadagur neytendaréttar (e. World Consumer Rights Day), en í ár er m.a. barist fyrir auknu trausti neytenda á hinum stafræna heimi.


Dagur netöryggis

Á hverju ári er haldinn alþjóðadagur netöryggis, en tilgangur hans er að stuðla að öruggari notkun internetsins og snjallsíma. 

Netverslun er sífellt að aukast og neytendur eru í auknum mæli farnir að kaupa sér vörur í tölvunni heima hjá sér, enda býður það upp á viss þægindi að hægt sé að versla sér varning án þess að þurfa að gera sér sérstaka ferð í verslunina sjálfa. Mikið er um að neytendur kaupi af erlendum vefsíðum þar sem gjarnan er hægt að gera góð kaup.


Neytendur og netgildrur

Evrópskir neytendur verða sífellt oftar fyrir barðinu á villandi og ágengum auglýsingum á internetinu og á samfélagsmiðlum. Neytendur verða að gæta að sér gagnvart slíkum gylliboðum svo þeir lendi ekki í því að greiða fyrir vörur eða áskrift sem þeir hafa ekki áhuga á.

ECC-Netið hefur því búið til stutt myndbrot sem hjálpar neytendum að koma auga á slíkar gildrur.