Kaup á netinu - reynslusögur

Gjaldþrot bílaleigu

Franskur ferðamaður hafði samband við ECC í Frakklandi vegna íslenskrar bílaleigu. Ferðamaðurinn bókaði bílaleigubíl á netinu í maímánuði og greiddi þá um 300.000 krónur fyrir leiguna. Þegar ferðamaðurinn mætti á bílaleiguna í lok júlímánaðar og ætlaði að nálgast bílinn var fyrirtækið lokað og enginn starfsmaður á staðnum, en jafnframt var búið að loka símanúmeri fyrirtækisins. Ferðamaðurinn óskaði eftir aðstoð ECC-netsins við að fá endurgreitt. ECC á Íslandi reyndi  að ná sambandi við fyrirtækið en ekki var svarað í síma og öll bréf sem sem bílaleigunni voru send voru endursend. Við nánari skoðun kom í ljós að fyrirtækið hafði verið úrskurðað gjaldþrota fjórum dögum áður en ferðamaðurinn bókaði bíleigubílinn í maí. ECC setti sig þá í samband við skiptastjóra þrotabúsins og endaði með því að ferðamaðurinn fékk endurgreitt. 


Bílaleigubíll afpantaður

Franskur ferðamaður pantaði bílaleigubíl í gegnum bókunarsíðu leigumiðlunar á netinu og hugðist nota hann á ferðalagi sínu um Ísland. Hann þurfti að greiða hluta leigunnar strax til bókunarsíðunnar en samkvæmt skilmálum var heimilt að afpanta leigu þar til sólarhring áður en leigutími skyldi hefjast og fá leiguna endurgreidda að fullu. Svo fór að ferðamaðurinn þurfti að afpanta leiguna áður en sá frestur sem afbókunarskilmálinn kvað á um rann út og fór hann fram á að endurgreiðslu. Þar sem tilraunir ferðamannsins til að fá endurgreitt báru ekki árangur leitaði hann til ECC-netsins. Eftir að starfsmenn ECC á Íslandi höfðu samband við leigumiðlunina fékk hann loks fulla endurgreiðslu.


Endurgreiðsla með hjálp ECC

Finnskur neytandi pantaði vöru af íslenskri netverslun og greiddi fyrir hana. Svo fór þó að neytandanum barst aldrei varan. Í kjölfarið leitaði hann til ECC í Finnlandi sem sendi málið áfram til ECC á Íslandi. Seljandinn taldi sig tvívegis hafa sent vöruna í pósti en þar sem hún hafði þrátt fyrir það aldrei skilað sér féllst hann á að endurgreiða allan kostnað sem neytandinn hafði haft af kaupunum.


Sófaborð skemmist í flutningum

Sænskur maður keypti sófaborð í gegnum netið frá Kanada. Flutningsfyrirtæki flutti það frá Kanada til Íslands en svo sá annað fyrirtæki um að koma því áleiðis til Svíþjóðar. Þegar borðið var komið heim til neytandans sá hann að það var brotið. Hann sendi þá kvörtun í gegnum kvörtunarsíðu á netinu sem átti að koma henni áleiðis til flutningsfyrirtækisins en fékk aldrei neitt svar frá fyrirtækinu. Hann setti sig þá í samband við ECC og óskaði eftir aðstoð við að fá greiddar skaðabætur vegna tjónsins sem varð á borðinu. ECC hafði samband við flutningsfyrirtækið og kom þá í ljós að kvörtunin hafði aldrei borist og var hann því ekki búinn að kvarta innan tilskilins tímafrests. Eftir að ECC hafði verið í samskiptum við fyrirtækið féllst það þó á að bæta tjónið, þrátt fyrir að tímafresturinn hefði verið liðinn.


Staðfestingargjald í skemmtisiglingu

Fimm einstaklingar pöntuðu siglingu gegnum þýska netsíðu í maí og greiddu 10% staðfestingargjald sem nam um 240 evrum á mann.  Ferðin átti að hefjast í lok janúar árið eftir.  Í september kom í ljós að fólkið þurfti að afpanta ferðina.  Í skilmálum á þýsku heimasíðunni kom fram að ef afpantað væri með meira en 60 daga fyrirvara þyrfti að greiða 5% af verði ferðarinnar.  Þar sem meira en 60 dagar voru í brottför óskaði fólkið eftir að fá helminginn af staðfestingargjaldinu til baka.  Seljandi hafnaði þeirri kröfu og sagðist halda eftir öllu staðfestingargjaldinu með þeim rökum að skilmálarnir á síðunni hafi verið úreltir og benti á skilmála skipafélagsins sem sögðu að greiða þyrfti 10% ferðarinnar ef afpantað væri með 60 daga fyrirvara eða meira.  Seljandinn vildi einnig meina að neytendurnir hefðu gert samning við skipafélagið en ekki sig. Í október hafði fólkið samband við ECC á Íslandi sem sendi málið til ECC í Þýskalandi og eftir milligöngu netsins fékk fólkið loks endurgreitt þessi 5% eða u.þ.b. 120 evrur á mann.


Vitlaus leigutími á bílaleigubíl

Íslenskur ferðamaður pantaði bílaleigubíl gegnum leigumiðlun á netinu. Þegar hann fyllti út leigubeiðnina breyttist upphaf leigutíma í kl. 10:00, en hann hafði ætlað að leigja bílinn seinna um daginn. Hann komst hins vegar ekki á bílaleiguna fyrr en klukkan 14:00. Þá var honum tjáð að hann væri of seinn og það væri þegar búið að leigja bílinn og að enginn annar bíll stæði til boða. Leigumiðlunin neitaði að ógilda bílaleigupöntunina og neitaði jafnframt að endurgreiða manninum þá 5 daga leigu sem hann hafði greitt fyrir. Ferðamaðurinn setti sig þá í samband við ECC á Íslandi sem hafði samband við ECC í Þýskalandi þar sem leigumiðlunin var skráð. Eftir milligöngu ECC-netsins féllst leigumiðlunin á að endurgreiða helminginn af pöntuninni. Íslenski ferðamaðurinn sætti sig við þá niðurstöðu en ECC-netið mun jafnframt freista þess að fá mismuninn frá bílaleigunni sjálfri.


Tengdar fréttir

Alþjóðadagur neytendaréttar

Þann 15. mars á hverju ári er haldinn alþjóðadagur neytendaréttar (e. World Consumer Rights Day), en í ár er m.a. barist fyrir auknu trausti neytenda á hinum stafræna heimi.


Dagur netöryggis

Á hverju ári er haldinn alþjóðadagur netöryggis, en tilgangur hans er að stuðla að öruggari notkun internetsins og snjallsíma. 

Netverslun er sífellt að aukast og neytendur eru í auknum mæli farnir að kaupa sér vörur í tölvunni heima hjá sér, enda býður það upp á viss þægindi að hægt sé að versla sér varning án þess að þurfa að gera sér sérstaka ferð í verslunina sjálfa. Mikið er um að neytendur kaupi af erlendum vefsíðum þar sem gjarnan er hægt að gera góð kaup.


Neytendur og netgildrur

Evrópskir neytendur verða sífellt oftar fyrir barðinu á villandi og ágengum auglýsingum á internetinu og á samfélagsmiðlum. Neytendur verða að gæta að sér gagnvart slíkum gylliboðum svo þeir lendi ekki í því að greiða fyrir vörur eða áskrift sem þeir hafa ekki áhuga á.

ECC-Netið hefur því búið til stutt myndbrot sem hjálpar neytendum að koma auga á slíkar gildrur.