Lög um kaup á netinu

Lög um húsgöngu- og fjarsölusamninga, en Neytendastofa hefur opinbert eftirlit með þeim, gilda þegar neytendur kaupa vörur í gegnum netið af seljanda sem stundar viðskiptin í atvinnuskyni. Samhliða þeim lögum gilda svo einnig reglur þeirra laga sem gilda annars um viðskiptin, sé vara þannig keypt af íslenskum seljanda í gegnum netið gilda lög um neytendakaup þegar kemur t.d. að gallareglum og þeim úrræðum sem neytendum standa til boða vegna galla.

Helstu reglur laga um húsgöngu- og fjarsölusamninga varða annars vegar reglur um upplýsingaskyldu seljanda, þ.e. þær upplýsingar sem skylt er að veita neytanda áður en kaupin fara fram, og hins vegar rétt neytanda til að falla frá samningi, þ.e. hætta við kaupin, en við netkaup eiga neytendur rétt á að hætta við kaup vöru innan 14 daga frá afhendingu. Neytandanum ber þá að skila vörunni óskemmdri til seljandans, og þarf hann sjálfur að greiða kostnað vegna endursendingarinnar. Ákvæðið um að falla frá samningi gildir ekki í tilvikum þar sem vara eða þjónusta hefur verið sérpöntuð eða sniðin að þörfum neytandans eða ef innsigli hafa verið rofin.

 Lögin byggja á Evróputilskipun og því eru þau að miklu leyti sambærileg milli landa innan Evrópska efnahagssvæðisins. Telji neytandi að erlendur seljandi hafi brotið gegn rétti hans við kaup á netinu er hægt að leita til ECC á Íslandi sem þá framsendir málið til ECC-stöðvar í heimalandi seljandans. Hafi neytendur búsettir á Íslandi hins vegar lent í vandræðum vegna viðskipta við íslenska seljendur er rétt að hafa samband við Neytendasamtökin.

Mikilvægt er að hafa í huga að lögin gilda aðeins þegar um raunveruleg neytendaviðskipti er að ræða, þ.e. þegar seljandi hefur atvinnu af sölunni, og því getur leikið vafi á hvort neytendur njóti þess réttar sem lögin kveða á um þegar vörur eru keyptar af einstaklingum í gegnum samskiptasíður á við Facebook og fleiri slíkar.

Tengdar fréttir

Alþjóðadagur neytendaréttar

Þann 15. mars á hverju ári er haldinn alþjóðadagur neytendaréttar (e. World Consumer Rights Day), en í ár er m.a. barist fyrir auknu trausti neytenda á hinum stafræna heimi.


Dagur netöryggis

Á hverju ári er haldinn alþjóðadagur netöryggis, en tilgangur hans er að stuðla að öruggari notkun internetsins og snjallsíma. 

Netverslun er sífellt að aukast og neytendur eru í auknum mæli farnir að kaupa sér vörur í tölvunni heima hjá sér, enda býður það upp á viss þægindi að hægt sé að versla sér varning án þess að þurfa að gera sér sérstaka ferð í verslunina sjálfa. Mikið er um að neytendur kaupi af erlendum vefsíðum þar sem gjarnan er hægt að gera góð kaup.


Neytendur og netgildrur

Evrópskir neytendur verða sífellt oftar fyrir barðinu á villandi og ágengum auglýsingum á internetinu og á samfélagsmiðlum. Neytendur verða að gæta að sér gagnvart slíkum gylliboðum svo þeir lendi ekki í því að greiða fyrir vörur eða áskrift sem þeir hafa ekki áhuga á.

ECC-Netið hefur því búið til stutt myndbrot sem hjálpar neytendum að koma auga á slíkar gildrur.