Gullnar reglur við netverslun

  • Skoðaðu fleiri netverslanir (gerðu verðsamanburð) og kannaðu reynslu annarra
  • Gættu að því hver það er sem býður vöruna til sölu
  • Lestu skilmála seljanda
  • Athugaðu vel hvaða greiðslumátar eru í boði
  • Ekki gefa upp meiri persónuupplýsingar en þörf er á
  • Athugaðu vel heildarverð og afhendingartíma

Skoðaðu fleiri netverslanir (gerðu verðsamanburð) og kannaðu reynslu annarra

Það getur verið mikill munur á verði, þjónustu og áreiðanleika netverslana. Það er gott að hafa það sem vísireglu við kaup á netinu, að ef seljandi býður svo gott tilboð á vöru að það er of gott til að vera satt eða of gott til að hafna, þá er ástæða til að hafa sérstakan vara á. Slík tilboð eru oft á tíðum ekkert annað en hrein og klár svik.

Leitaðu eftir greinargóðri lýsingu á vörunni og hafðu í huga að þú getur ekki handleikið vöruna fyrir kaupin.

Þá er góð regla að „gúggla“ seljanda áður en viðskipti fara fram. Neytendur sem hafa verið sviknir í viðskiptum eru duglegir að tjá sig um þá reynslu á netinu og því getur skipt miklu að sjá hvaða reynslu aðrir hafa af viðkomandi seljanda.

Gættu að því hver það er sem býður vöruna til sölu

Þegar keypt er af viðurkenndum söluaðila sem hefur fasta starfsstöð og er þekktur er áhættan minnkuð verulega. Þú skalt leita eftir nafni seljanda, heimilisfangi hans og símanúmeri á heimasíðunni. Einnig er það sjálfsögð krafa neytenda sem kaupa vöru á netinu að hægt sé að hafa samband við seljanda í gegnum tölvupóst.

Lestu skilmála seljanda

Skilmálar seljanda geta m.a. gefið upplýsingar um hvernig seljandinn hagar málum varðandi skilarétt og afpantanir. Ef þér finnst skilmálarnir vera ósanngjarnir eða finnst þú ekki geta fallist á þá, þá skaltu hætta við kaupin. Skilmálar mega hins vegar ekki veita þér lakari rétt en þú hefur lögum samkvæmt og seljendur í löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins eru bundnir af Evrópureglum. Í löndum utan EES-svæðisins eru réttindi neytenda við netkaup hins vegar mismunandi og geta veitt lakari rétt en samkvæmt íslenskum lögum.

Athugaðu vel hvaða greiðslumátar eru í boði

Ekki gefa upp kortaupplýsingar fyrr en þú hefur pantað vöruna sem þú ætlar að kaupa. Þú skalt ekki borga með því að millifæra pening inn á reikning seljanda eða með því að senda pening með fyrirtækjum sem bjóða þjónustu með peningasendingar milli landa. Alla jafna er öruggast að greiða með kreditkorti, enda getur þá jafnvel komið til þess að kortafyrirtækið þurfi að endurgreiða þér komi t.d. til þess að varan berist aldrei. Þú skalt þó athuga hvort fyrirtækið er með örugga síðu áður en þú borgar beint með kreditkorti. Hægt er að sjá það ef lítill gulur lás er í jaðri gluggans en það er svokallað SSL-secure. En varastu fölsun, ef þú smellir á lásinn á öryggisskírteinið að birtast. Einnig er gott að vita að öruggar síður hafa fremst í vefslóðinni https í stað http á venjulegum síðum.

Ekki gefa upp meiri persónuupplýsingar en þörf er á

Við kaup á netinu er gott að hafa í huga þá grundvallarreglu að seljandinn þarf ekki á öðrum upplýsingum að halda en nafni þínu, heimilisfangi og tölvupóstfangi. Seljandi getur þurft að hafa samband við þig og því þarf að gefa upp tölvupóstfang. Varastu að gefa upp meiri upplýsingar þar sem þú veist aldrei hvað seljandinn mun gera við þær upplýsingar.

Athugaðu heildarverð og afhendingartíma

Athugaðu að þú átt að fá uppgefið heildarverð, m.a. með flutningskostnaði, og upplýsingar um hvernig varan verður send til þín, áður en þú borgar fyrir hana. Verð vöru á vefsíðu inniheldur oftast ekki flutningskostnað, þar sem hann er mismunandi eftir því hvar kaupandi býr. Þú verður einnig að muna að ef þú ert að kaupa vöru erlendis frá, munu bætast við vöruverðið aðflutningsgjöld, virðisaukaskattur og tollmeðferðargjald, og sé um tiltölulega ódýra vöru að ræða geta þessu gjöld hæglega orðið hærri en upphaflega vöruverðið.

Tengdar fréttir

Alþjóðadagur neytendaréttar

Þann 15. mars á hverju ári er haldinn alþjóðadagur neytendaréttar (e. World Consumer Rights Day), en í ár er m.a. barist fyrir auknu trausti neytenda á hinum stafræna heimi.


Dagur netöryggis

Á hverju ári er haldinn alþjóðadagur netöryggis, en tilgangur hans er að stuðla að öruggari notkun internetsins og snjallsíma. 

Netverslun er sífellt að aukast og neytendur eru í auknum mæli farnir að kaupa sér vörur í tölvunni heima hjá sér, enda býður það upp á viss þægindi að hægt sé að versla sér varning án þess að þurfa að gera sér sérstaka ferð í verslunina sjálfa. Mikið er um að neytendur kaupi af erlendum vefsíðum þar sem gjarnan er hægt að gera góð kaup.


Neytendur og netgildrur

Evrópskir neytendur verða sífellt oftar fyrir barðinu á villandi og ágengum auglýsingum á internetinu og á samfélagsmiðlum. Neytendur verða að gæta að sér gagnvart slíkum gylliboðum svo þeir lendi ekki í því að greiða fyrir vörur eða áskrift sem þeir hafa ekki áhuga á.

ECC-Netið hefur því búið til stutt myndbrot sem hjálpar neytendum að koma auga á slíkar gildrur.