Skaðabætur

Í sumum tilvikum geta farþegar jafnframt, auk aðstoðar í formi máltíða og gistingar og endurgreiðslu eða nýrrar flugferðar, krafist skaðabóta vegna aflýsingar eða langrar seinkunar, en upphæðin fer eftir lengd flugsins sem um ræðir.

Upphæðirnar eru:

• 250 evrur fyrir öll flug sem eru 1.500 km eða styttri

• 400 evrur fyrir öll flug innan EES sem eru lengri en 1.500 km og fyrir öll önnur flug á bilinu 1.500 og 3.500 km

• 600 evrur fyrir öll flug sem ekki falla í flokkana tvo fyrir ofan.

Flugrekandi getur verið laus undan skaðabótaábyrgð ef hann sýnir fram á að seinkunin eða aflýsingin hafi verið af völdum óviðráðanlegra aðstæðna sem ekki hefði verið hægt að koma í veg fyrir jafnvel þótt allar nauðsynlegar ráðstafanir hefðu verið viðhafðar. Þetta þýðir að þegar seinkun eða aflýsing er af völdum einhvers sem flugrekandi hefur ekki stjórn á, er hann laus undan skaðabótaskyldu. Þetta á við þegar slæm veðurskilyrði hamla flugumferð, þegar náttúruhamfarir eins og eldgos eru, þegar tekin er ákvörðun í flugumferðarstjórn að stöðva flug, þegar um styrjaldir, hryðjuverk eða aðrar svipaðar aðstæður er að ræða. Flugrekandi er almennt ekki laus undan skaðabótaskyldu ef seinkun eða aflýsing er af völdum tæknilegra vandamála sem algeng eru í rekstri flugvéla. Þá gildir þetta bara um skaðabótaskylduna, en réttur farþegar til máltíða, gistingar o.s.frv. er eftir sem áður til staðar.

 Jafnframt er flugrekandi laus undan skaðabótaskyldu ef tilkynnt er um aflýsinguna með ákveðnum fyrirvara, þ.e. farþegar eiga rétt á skaðabótum nema: þeim sé tilkynnt um að viðkomandi flugi sé aflýst a.m.k. tveimur vikum fyrir áætlaða brottför

eða

 þeim sé tilkynnt tveimur vikum til sjö dögum fyrir áætlaða brottför að fluginu sé aflýst og boðið að breyta flugleið sinni sem gerir þeim kleift að leggja af stað innan tveggja klukkutíma fyrir áætlaðan brottfarartíma og komast á lokaákvörðunarstað innan fjögurra klukkustunda eftir áætlaðan komutíma

eða

þeim sé tilkynnt minna en sjö dögum fyrir áætlaða brottför að fluginu sé aflýst og boðið að breyta flugleið sinni, sem gerir þeim kleift að leggja af stað innan klukkustundar fyrir áætlaðan brottfarartíma og komast á lokaákvörðunarstað innan tveggja klukkustunda eftir áætlaðan komutíma.

Hvað sem þessum reglum líður ber flugrekanda svo eftir sem áður að bjóða farþegum aðstoð á borð við hressingu og gistingu sé þörf á slíku vegna aflýsingarinnar.

Tengdar fréttir

Slóvenska flugfélagið Adria gjaldþrota

Í byrjun mánaðarins sótti flugfélagið Adria um gjaldþrotaskipti. Þeir flugfarþegar sem gjaldþrotið hafði áhrif á geta nú sent inn kröfur í þrotabúið

Hvað þarf ég að senda?
Nauðsynlegt er að senda skriflega kröfu í þrotabúið og hún þarf að vera á Slóvensku. Ekki dugar að senda kröfuna í tölvupósti, heldur þarf hún að berast í bréfpósti.

Hvert sendi ég kröfuna?
Þú þarft að senda kröfuna í bréfpósti á eftirfarandi heimilisfang:


Flug með Air Berlin

Þann 15. ágúst sl. lýsti Air Berlin yfir greiðsluþroti og var fjallað um það hér á heimasíðunni. Nú hefur flugfélagið tilkynnt að það muni ekki starfrækja flug eftir 28. október nk.

Hvað ef Air Berlin hefur aflýst flugi mínu?
Ef farþegi bókaði flug fyrir 15. ágúst sl. þá verður hann að lýsa kröfu sinni í þrotabúið. Ef flugmiði var bókaður eftir 15. ágúst sl. þá hefur Air Berlin lýst því yfir að félagið muni endurgreiða flugmiðann.


Air Berlin lýsir yfir greiðsluþroti

Samkvæmt ECC í Þýskalandi lýsti þýska flugfélagið Air Berlin þann 15. ágúst 2017 yfir greiðsluþroti. Enn sem komið er hefur fyrirtækið ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta.

Hvað þýðingu hefur greiðsluþrotið fyrir þá farþega sem nú þegar eiga bókuð flug með Air Berlin?
Flugfélagið hefur fengið fjármagn frá þýskum yfirvöldum til að halda starfsemi áfram næstu þrjá mánuði. Þetta þýðir að enn sem komið er ættu þeir farþegar sem þegar hafa bókað flug með flugfélaginu ekki að hafa áhyggjur af því að flugi þeirra verði aflýst vegna greiðsluerfiðleikanna.