Flugfarþegar - reynslusögur

Verkfall flugmanna

Frönsk kona átti bókað flug frá Reykjavík til Parísar en fluginu var seinkað vegna verkfalls flugmanna. Konan krafði flugfélagið um staðlaðar skaðabætur í samræmi við Evrópureglugerð um réttindi flugfarþega en þeirri kröfu var hafnað. Hún hafði þá samband við ECC í Frakklandi sem sendi málið til ECC á Íslandi. Eftir að ECC hafði samband við fyrirtækið samþykkti það að greiða konunni skaðabætur í samræmi við reglugerðina, eða 400 evrur.


Öskuteppt par fær endurgreiðslu

Hollenskt par keypti sér fjögurra daga pakkaferð til Íslands. Vegna eldgoss varð mikil seinkun á fluginu og fór svo að þau misstu af einni gistinótt sem þau höfðu þegar greitt fyrir. Eftir milligöngu ECC féllst seljandi á að endurgreiða kostnaðinn vegna gistingarinnar og jafnframt á að greiða kostnað vegna hressingar sem parið hafði þurft að kaupa sér meðan á töfinni stóð.


Ferðamaður fær tjón á farangri bætt

Kona frá Lúxemborg ferðaðist til Íslands til að heimsækja ættingja yfir jólin.  Farangrinum hennar seinkaði í 6 daga og þegar hann kom loksins til landsins var taskan og hluti innihaldsins skemmd auk þess sem suma hluti vantaði í farangurinn.  Konan neyddist til að kaupa nýja ferðatösku ásamt lágmarks fatnaði og snyrtivörum til að nota yfir hátíðarnar og fór hún fram að fá kostnaðinn bættan frá flugfélaginu sem hafnaði kröfu hennar. Í kjölfarið leitaði konan til ECC í Lúxemborg sem sendi málið til ECC á Íslandi.  Að lokum samþykkti flugfélagið að bæta konunni tjónið að hluta en enn var ágreiningur um töskuna sjálfa.  Að endingu samþykkti flugfélagið þó að greiða töskuna og fékk því konan að lokum allt tjón sitt bætt.


Týndur farangur

Til ECC leitaði maður sem hafði flogið með íslenskum flugrekanda frá Keflavík til Varsjár með millilendingu í Zurich í Sviss.  Maðurinn hafði innritað tösku sína í flugið en fékk hana ekki afhenta við komuna til Varsjár og tilkynnti því tapaðan farangur við komu sína þar. Níu dögum síðar sendi maðurinn flugfélaginu tölvupóst þar sem hann fór fram á bætur fyrir töskuna ásamt innihaldi hennar og fékk hann svar til baka um að málið væri í skoðun og jafnframt var hann beðinn um að fylla út sérstakt eyðublað um nákvæmt innihald töskunnar og áætlað verðmæti. Tæpum tveimur mánuðum síðar hafði hann enn ekkert frekara svar fengið frá flugfélaginu og sendi hann því ítrekun.  Þá barst honum svar til baka um að listinn með innhaldi töskunnar væri móttekinn en enn væri verið að freista þess finna töskuna.  Sagt var að samband yrði haft við hann fljótlega vegna málsins. Þremur mánuðum seinna hafði maðurinn enn ekki móttekið bætur vegna töskunnar né hafði verið haft samband við hann eins og lofað var og leitaði þá maðurinn til ECC í Póllandi sem áframsendi málið til ECC á Íslandi. Eftir milligöngu ECC, rúmum mánuði eftir að ECC á Íslandi hafði móttekið málið fékk maðurinn greiddar þær bætur er hann taldi réttilegar fyrir töskuna og innhald hennar eða 486 evrur.


Skemmdur farangur

Eldri borgari frá Ungverjalandi sem flaug með íslensku flugfélagi frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur í varð fyrir því að taskan hans skemmdist í meðförum flugfélagsins. Taskan var úr hörðu plasti og keypt sérstaklega fyrir þessa ferð. Maðurinn varð ekki var við skemmdina fyrr en hann kom á gististað sinn og hafði þá samband við Keflavíkurflugvöll og var sagt að sýna töskuna á leið sinni til baka sem hann gerði. Taskan var þá plöstuð fyrir hann þar sem gat/rifa var á töskunni og var hann beðinn að senda mynd af skemmdum þegar heim kæmi, sem hann og gerði.  Maðurinn fór fram á að fá kaupverð töskunnar, 85 evrur, að fullu bætt. Flugfélagið svaraði loks manninum eftir fjóra og hálfan mánuð og var svarið á þá leið að farið væri fram á bókunarnúmer, kvittun fyrir kaupum á töskunni og staðfestingu frá viðgerðaraðila á því að ekki væri hægt að gera við töskuna. Því miður átti maðurinn ekki kvittun fyrir töskunni og taldi ekki ástæðu til að fá mat viðgerðaraðila þar sem taskan væri úr hörðu plasti og því augljóst af ljósmyndum að ekki væri hægt að gera við hana. Í kjölfarið óskaði maðurinn eftir aðstoð ECC í Ungverjalandi sem sendi málið til ECC á Íslandi. Eftir milligöngu ECC á Íslandi varð flugfélagið við beiðni farþegans og greiddi töskuna að fullu.


Tengdar fréttir

Slóvenska flugfélagið Adria gjaldþrota

Í byrjun mánaðarins sótti flugfélagið Adria um gjaldþrotaskipti. Þeir flugfarþegar sem gjaldþrotið hafði áhrif á geta nú sent inn kröfur í þrotabúið

Hvað þarf ég að senda?
Nauðsynlegt er að senda skriflega kröfu í þrotabúið og hún þarf að vera á Slóvensku. Ekki dugar að senda kröfuna í tölvupósti, heldur þarf hún að berast í bréfpósti.

Hvert sendi ég kröfuna?
Þú þarft að senda kröfuna í bréfpósti á eftirfarandi heimilisfang:


Flug með Air Berlin

Þann 15. ágúst sl. lýsti Air Berlin yfir greiðsluþroti og var fjallað um það hér á heimasíðunni. Nú hefur flugfélagið tilkynnt að það muni ekki starfrækja flug eftir 28. október nk.

Hvað ef Air Berlin hefur aflýst flugi mínu?
Ef farþegi bókaði flug fyrir 15. ágúst sl. þá verður hann að lýsa kröfu sinni í þrotabúið. Ef flugmiði var bókaður eftir 15. ágúst sl. þá hefur Air Berlin lýst því yfir að félagið muni endurgreiða flugmiðann.


Air Berlin lýsir yfir greiðsluþroti

Samkvæmt ECC í Þýskalandi lýsti þýska flugfélagið Air Berlin þann 15. ágúst 2017 yfir greiðsluþroti. Enn sem komið er hefur fyrirtækið ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta.

Hvað þýðingu hefur greiðsluþrotið fyrir þá farþega sem nú þegar eiga bókuð flug með Air Berlin?
Flugfélagið hefur fengið fjármagn frá þýskum yfirvöldum til að halda starfsemi áfram næstu þrjá mánuði. Þetta þýðir að enn sem komið er ættu þeir farþegar sem þegar hafa bókað flug með flugfélaginu ekki að hafa áhyggjur af því að flugi þeirra verði aflýst vegna greiðsluerfiðleikanna.