Flugfarþegar - reynslusögur

Finnsk fjölskylda lendir í flugraunum

Fjögurra manna finnsk fjölskylda átti bókað flug frá Halifax til Amsterdam með millilendingu í Keflavík. Flugi þeirra til Keflavíkur seinkaði vegna tæknilegra vandræða og lentu þau tveimur tímum seinna en áætlað var á Keflavíkurflugvelli. Vegna þessara tafa misstu þau af tengiflugi sínu áfram til Amsterdam. Þar sem flugið frá Halifax til Amsterdam var keypt í einni bókun, og þar sem töfin leiddi til þess að þau komu átta tímum seinna til lokaákvörðunarstaðar en áætlað var, krafðist fjölskyldan staðlaðra skaðabóta samkvæmt Evrópureglugerð 261/2004. Fjölskyldan hafði samband við ECC sem sendi í kjölfarið bréf til flugfélagsins sem samþykkti að greiða bætur að upphæð 2.400 evrur, eða 600 evrur vegna hvers farþega.


Fjölskylda lendir í flugverkfalli

Þriggja manna frönsk fjölskylda átti bókað flug frá Keflavík til Parísar. Fluginu var aflýst vegna verkfalls hjá flugmönnum flugfélagsins. Fjölskyldan fékk flug daginn eftir og endurgreiddi flugfélagið þann aukakostnað sem fjölskyldan varð fyrir. Flugfélagið hafnaði hins vegar kröfu fjölskyldunnar um skaðabætur samkvæmt Evrópureglum og vísaði til þess að um óviðráðanlegar aðstæður hefði verið að ræða. Fjölskyldan leitaði þá til ECC-netsins sem taldi þessa túlkun flugfélagsins á „óviðráðanlegum aðstæðum“ ekki standast. Eftir milligöngu ECC á Íslandi féllst flugfélagið á að greiða skaðabætur skv. reglugerðinni að upphæð 1.200 evrur, eða 400 evrur á hvern farþega.


Týndar útilegugræjur

Fimm franskir ferðamenn flugu með íslensku flugfélagi frá Frakklandi til Bandaríkjanna með millilendingu á Íslandi. Af einhverjum ástæðum barst farangur þeirra ekki með flugvélinni til Bandaríkjanna og kvörtuðu þeir strax við flugfélagið. Þeir fengu þau svör að farangurinn yrði sendur til þeirra við fyrsta tækifæri. Svo fór að á meðan 19 daga dvöl þeirra stóð komst ekki allur farangurinn til skila. Ferðamennirnir neyddust því til að kaupa sér ýmsar nauðsynjar auk þess sem þeir þurftu að kaupa eða leigja ýmiss konar útivistarbúnað en megintilgangur ferðarinnar var að fara í útilegu. Ferðamennirnir kröfðu flugfélagið um að fá útlagðan kostnað endurgreiddan. Það bar ekki árangur og  settu þeir sig þá í samband við ECC-netið. Þeir höfðu gætt þess vel að geyma allar kvittanir og gátu því sýnt fram á raunveruleg útgjöld. Eftir milligöngu ECC á Íslandi fengu ferðamennirnir endurgreiddan útlagðan kostnað, að upphæð 1.173 evrur, ásamt því að flugfélagið bauð þeim gjafabréf sem sárabætur fyrir öll óþægindin.


Biluð flugvél veldur töfum

Íslensk hjón áttu flug frá Tenerife á Spáni til Gatwick-flugvallar í London. Þaðan áttu þau tengiflug áfram til Íslands með öðru flugfélagi. Vegna bilunar í flugvélinni seinkaði flugi hjónanna til Gatwick um sjö klukkutíma og misstu þau því af tengifluginu áfram til Íslands. Þau höfðu þá samband við flugfélagið sem þau flugu með frá Tenerife og kröfðust staðlaðra skaðabóta í samræmi við reglugerð um réttindi flugfarþega, eða 400 evra vegna hvers farþega. Flugfélagið hafnaði kröfu hjónanna, sem höfðu í kjölfarið samband við ECC á Íslandi og óskuðu eftir aðstoð í málinu. ECC á Íslandi sendi málið út til systurstöðvar sinnar í Bretlandi og krafðist þess að flugfélagið greiddi hjónunum skaðabætur. Eftir milligöngu ECC-netsins samþykkti flugfélagið að greiða hjónunum skaðabætur að upphæð 800 evrur samtals líkt og krafist var.


Strandaðir Frakkar fá bætur

Frönsk hjón áttu flug frá Keflavík til Parísar sem átti upphaflega að fara í loftið klukkan kl. 15:40 en seinkaði og fór ekki í loftið fyrr en rúmum þremur tímum síðar. Hremmingar hjónanna héldu svo áfram því stuttu eftir flugtak var farþegum tilkynnt að flugvélinni yrði snúið við vegna bilunar. Hjónin voru þá send á hótel þar sem þau voru í stutta stund áður en haldið var aftur út á flugvöll þar sem vélin átti að vera tilbúin að fara í loftið. Fluginu seinkaði þó enn frekar og fór ekki fyrr en um klukkan 8:20, eða tæpum 17 tímum eftir áætlaða brottför. Hjónin kröfðust skaðabóta í samræmi við Evrópureglugerð um réttindi flugfarþega en þegar það bar ekki árangur leituðu þau til ECC-netsins. Eftir milligöngu ECC lauk málinu með greiðslu skaðabóta að upphæð 800 evrur samtals.


Hringlað með brottför

Íslenskt par átti bókað flug frá Róm til Kölnar sem átti upphaflega að fara í loftið kl. 20:10 en fluginu var flýtt með skömmum fyrirvara og var nýr brottfarartími kl. 18:35. Þegar parið mætti á flugvöllinn hafði fluginu verið seinkað aftur og fór flugvélin því ekki í loftið fyrr en kl. 23:42 um kvöldið. Vegna seinkunarinnar varð parið fyrir ýmsum óþægindum og missti m.a. af tengiflugi til Íslands. Þar sem flugfélagið svaraði ekki umkvörtunum ákváðu þau að leita aðstoðar hjá ECC á Íslandi. Þaðan var málið sent áfram til Þýskalands og eftir milligöngu ECC fékk parið greiddar staðlaðar skaðabætur að upphæð 800 evrur samtals.


Tengdar fréttir

Slóvenska flugfélagið Adria gjaldþrota

Í byrjun mánaðarins sótti flugfélagið Adria um gjaldþrotaskipti. Þeir flugfarþegar sem gjaldþrotið hafði áhrif á geta nú sent inn kröfur í þrotabúið

Hvað þarf ég að senda?
Nauðsynlegt er að senda skriflega kröfu í þrotabúið og hún þarf að vera á Slóvensku. Ekki dugar að senda kröfuna í tölvupósti, heldur þarf hún að berast í bréfpósti.

Hvert sendi ég kröfuna?
Þú þarft að senda kröfuna í bréfpósti á eftirfarandi heimilisfang:


Flug með Air Berlin

Þann 15. ágúst sl. lýsti Air Berlin yfir greiðsluþroti og var fjallað um það hér á heimasíðunni. Nú hefur flugfélagið tilkynnt að það muni ekki starfrækja flug eftir 28. október nk.

Hvað ef Air Berlin hefur aflýst flugi mínu?
Ef farþegi bókaði flug fyrir 15. ágúst sl. þá verður hann að lýsa kröfu sinni í þrotabúið. Ef flugmiði var bókaður eftir 15. ágúst sl. þá hefur Air Berlin lýst því yfir að félagið muni endurgreiða flugmiðann.


Air Berlin lýsir yfir greiðsluþroti

Samkvæmt ECC í Þýskalandi lýsti þýska flugfélagið Air Berlin þann 15. ágúst 2017 yfir greiðsluþroti. Enn sem komið er hefur fyrirtækið ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta.

Hvað þýðingu hefur greiðsluþrotið fyrir þá farþega sem nú þegar eiga bókuð flug með Air Berlin?
Flugfélagið hefur fengið fjármagn frá þýskum yfirvöldum til að halda starfsemi áfram næstu þrjá mánuði. Þetta þýðir að enn sem komið er ættu þeir farþegar sem þegar hafa bókað flug með flugfélaginu ekki að hafa áhyggjur af því að flugi þeirra verði aflýst vegna greiðsluerfiðleikanna.