Flugfarþegar - reynslusögur

Íslensk hjón fá bætur vegna aflýsts flugs

Íslensk hjón áttu pantað flug með erlendu flugfélagi frá Englandi til Spánar. Hálfri klukkustund fyrir áætlaða brottför var fluginu aflýst án frekari skýringa. Eftir að hafa gist á nærliggjandi hóteli fóru hjónin aftur út á flugvöll og var þá sagt að viðkomandi flugfélag mundi ekki fljúga til þessa áfangastaðar næstu tvo daga. Urðu hjónin því að kaupa sér far með öðru flugfélagi. Eftir milligöngu ECC Íslands og ECC-stöðvarinnar í Bretlandi féllst flugfélagið á að greiða hjónunum bætur að upphæð 250 evrur hverju vegna aflýsingarinnar auk þess sem þau fengu upphaflega flugið, og gistinóttina á flugvallarhótelinu, endurgreitt.


ECC aðstoðar flugfarþega

Breskur ferðamaður átti flug frá Keflavík til Edinborgar. Vegna fellibyls sem gekk yfir Bandaríkin var ekki hægt að fljúga til Edinborgar og voru manninum boðnir tveir kostir þ.e. að fljúga til Gatwick í stað Edinborgar eða hætta við flugið og fá það endurgreitt.  Maðurinn valdi flugið til Gatwick þar sem hann þurfi að komast heim til Edinborgar.  Flugsali taldi að þar með hefði maðurinn valið annan áfangastað og þyrfti því sjálfur að koma sér á lokaáfangastað.  Maðurinn valdi hins vegar umrætt flug þar sem það var honum nauðugur kostur, en varð fyrir því tjóni að þurfa að greiða fyrir flug á milli London og Edinborgar en það kostaði 143 pund.  Maðurinn óskaði eftir endurgreiðslu frá flugfélaginu vegna umrædds flugmiða en flugsalinn taldi að honum bæri einungis að koma manninum til sama lands en ekki lokaákvörðunarstaðar og hafnaði því kröfu hans.  Eftir milligöngu ECC var manninum hins vegar endurgreiddur flugmiðinn enda bar flugfélaginu að koma honum á lokaáfangastað.


Bætur vegna seinkunar á flugi

Þrír neytendur frá Hollandi fóru í frí til Íslands.  Seinkun varð á heimflugi þeirra um tæpa 9 tíma vegna bilunar í vél.  Neytendurnir höfðu samband við flugfélagið eftir heimkomu og óskuðu eftir 400 evrum á mann í bætur ásamt máltíðum sem þeir höfðu þó ekki áttað sig að taka nótur fyrir.  Kröfu þeirra var hafnað. ECC í Hollandi tók við málinu og sendi það til ECC á Íslandi sem óskaði eftir ákvörðun Samgöngustofu  í málinu.  Nokkru síðar var gefin út ákvörðun þess efnis að flugfélagið skyldi greiða hverjum kvartanda 400 evrur í bætur vegna seinkunarinnar.  Bæturnar voru greiddar um ári eftir ferðalagið eða eftir að þriggja mánaða kærufrestur flugfélagsins rann út.


Yfirbókun í flug

Írsk kona varð fyrir því í að henni var neitað um far með íslensku flugfélagi vegna yfirbókunar.  Konunni var séð fyrir nýju flugi daginn eftir ásamt gistingu meðan beðið var. Konan margkvartaði við flugfélagið í síma, með tölvupósti og bréfpósti og óskaði eftir skaðabótum samkvæmt reglugerð um réttindi flugfarþega en var aðeins boðin inneign fyrir tvo í nýtt flug með félaginu sem konan vildi ekki þiggja, enda ekki á hverjum degi að bóka flug með íslensku félagi og ennfremur átti hún rétt á skaðabótum upp á 400 evrur. Í hátt á annað ár eða reyndi hún að fá umræddar bætur greiddar en án árangurs.  Leitaði hún því til ECC í sínu heimalandi sem sendi málið til ECC-Íslands.  Eftir milligöngu ECC fékk konan bæturnar loks greiddar tveimur árum eftir að henni var neitað um far!


Óviðráðanleg seinkun?

Hollensk systkini keyptu sér flug frá Amsterdam til Keflavíkur og aftur heim með íslensku flugfélagi. Á heimleiðinni seinkaði fluginu um átta tíma og mátti rekja seinkunina til þess að hleðslubíl var ekið á flugvélina. Flugfélagið sá farþegum fyrir máltíðum og hótelgistingu meðan beðið var í samræmi Evrópureglugerð 261/2004 en neitaði að greiða 400 evrur í skaðabætur. Systkinin leituðu þá til ECC í Hollandi sem sendi málið til ECC á Íslandi sem fór fram á umræddar bætur frá flugfélaginu. Flugfélagið hafnaði greiðslu bóta á þeim forsendum að um óviðráðanlegt atvik væri að ræða. ECC-Ísland leitaði þá til Samgöngustofu til að fá álit á málinu og fékk þá þær upplýsingar að Samgöngustofa hefði nú þegar eins mál (aðrir farþegar með sama flugi) til meðferðar og ákvörðunar væri að vænta innan skamms. Því var ákveðið að bíða eftir niðurstöðu þess máls. Ákvörðunin var svo þess efnis að atvikið gæti ekki talist til óviðráðanlegra aðstæðna. Í meginatriðum taldi Samgöngustofa hleðslu flugvéla tilheyra venjulegri starfsemi flugfélagsins og bæri því að tryggja að staðið væri að starfseminni með fullnægjandi hætti. Túlka yrði óviðráðanleg ytri atvik þröngt s.s. náttúruhamfarir eða önnur hliðstæð atvik sem ekki væri hægt að forðast með venjulegum ráðstöfunum. Óhappið sem olli hinni umdeildu seinkun hafi átt sér stað vegna mannlegra mistaka starfsmanns flugfélagsins og ekki þætti rétt að láta farþega bera hallann af því. Þegar þessi ákvörðun lá fyrir fór ECC-Ísland aftur fram á bætur fyrir hönd systkinanna frá Hollandi og vísaði þar til fyrrgreindrar ákvörðunar. Flugfélagið brást skjótt við og greiddi umræddar bætur, alls 800 evrur.


Franskri fjölskyldu neitað um far

Frönsk fjölskylda keypti flug með íslensku flugfélagi frá París til Keflavíkur og þaðan til Boston.  Við innritun í París voru þau krafin um heimilisfangið sem þau ætluðu að dvelja á í Boston og var sú skýring gefin að nettenging flugvallarins lægi niðri. Heimilisfangið höfðu þau ekki á sér en þau höfðu verið búin að fylla út rafræna ESTA ferðaheimild sem farþegum frá flestum löndum í Evrópu sem eru í svokölluðu Visa Waiver Program er skylt að fylla út fyrir brottför til að mega ferðast til Bandaríkjanna án vegabréfsáritunar í 90 daga eða minna. Í ESTA heimildinni er skylda að taka fram heimilisfang gististaðar í Bandaríkjunum, og það hafði fjölskyldan gert.  Þegar þau gátu ekki gefið upp umrætt heimilisfang á flugvellinum var þeim synjað um far sem varð til þess að þau þurftu að fara í flug næsta dag. Viðbótarkostnaður vegna þess var 1.205 Evrur. Eftir ferðina krafðist fjölskyldan umrædds kostnaðar til baka frá flugfélaginu sem hafnaði beiðni hennar án skýringa.  Hún leitaði þá til Evrópsku neytendaaðstoðarinnar í Frakkalandi sem sendi málið til ECC-Íslands sem sendi flugfélaginu bréf.  Rúmlega einum og hálfum mánuði síðar samþykkti flugfélagið að greiða viðbótarkostnað fjölskyldunnar eða 1.205 evrur.


Tengdar fréttir

Slóvenska flugfélagið Adria gjaldþrota

Í byrjun mánaðarins sótti flugfélagið Adria um gjaldþrotaskipti. Þeir flugfarþegar sem gjaldþrotið hafði áhrif á geta nú sent inn kröfur í þrotabúið

Hvað þarf ég að senda?
Nauðsynlegt er að senda skriflega kröfu í þrotabúið og hún þarf að vera á Slóvensku. Ekki dugar að senda kröfuna í tölvupósti, heldur þarf hún að berast í bréfpósti.

Hvert sendi ég kröfuna?
Þú þarft að senda kröfuna í bréfpósti á eftirfarandi heimilisfang:


Flug með Air Berlin

Þann 15. ágúst sl. lýsti Air Berlin yfir greiðsluþroti og var fjallað um það hér á heimasíðunni. Nú hefur flugfélagið tilkynnt að það muni ekki starfrækja flug eftir 28. október nk.

Hvað ef Air Berlin hefur aflýst flugi mínu?
Ef farþegi bókaði flug fyrir 15. ágúst sl. þá verður hann að lýsa kröfu sinni í þrotabúið. Ef flugmiði var bókaður eftir 15. ágúst sl. þá hefur Air Berlin lýst því yfir að félagið muni endurgreiða flugmiðann.


Air Berlin lýsir yfir greiðsluþroti

Samkvæmt ECC í Þýskalandi lýsti þýska flugfélagið Air Berlin þann 15. ágúst 2017 yfir greiðsluþroti. Enn sem komið er hefur fyrirtækið ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta.

Hvað þýðingu hefur greiðsluþrotið fyrir þá farþega sem nú þegar eiga bókuð flug með Air Berlin?
Flugfélagið hefur fengið fjármagn frá þýskum yfirvöldum til að halda starfsemi áfram næstu þrjá mánuði. Þetta þýðir að enn sem komið er ættu þeir farþegar sem þegar hafa bókað flug með flugfélaginu ekki að hafa áhyggjur af því að flugi þeirra verði aflýst vegna greiðsluerfiðleikanna.