Ferðalög - reynslusögur

Skemmd ferðataska

Írskur ferðamaður sem flaug frá Keflavík til Dyflinnar tók eftir því þegar hann vitjaði ferðatösku sinnar á farangursbandinu að hún hafði skemmst í fluginu og leit út fyrir að hafa fengið á sig högg. Hann tilkynnti um skemmdirnar strax á flugvellinum og sendi svo tölvupóst á flugfélagið án þess að fá úrlausn á máli sínu. Ferðamaðurinn setti sig þá í samband við ECC á Írlandi sem áframsendi málið til ECC á Íslandi sem hafði samband við flugfélagið. ECC á Íslandi sendi erindi á flugfélagið á föstudegi og fékk svar á mánudeginum um að flugfélagið samþykkti að greiða fyrir tjónið á töskunni líkt og ferðamaðurinn fór fram á, ásamt því að endurgreiða farangursgjaldið. Ferðamaðurinn fékk því greiddar tæpar 22.000 kr.


Farangur skilar sér ekki

Finnskur ferðamaður átti bókað flug frá Toronto til Helsinki með millilendingu í Keflavík, en þegar hann lenti í Finnlandi kom í ljós að farangurinn hafði ekki skilað sér. Flugfélagið lofaði að koma farangrinum til Nýja Sjálands þangað sem ferðamaðurinn var að fara daginn eftir. Það tók flugfélagið hins vegar níu daga að koma farangrinum á leiðarenda. Loksins þegar farangurinn barst þurfti maðurinn til að kaupa sér rútumiða svo hann gæti náð í farangurinn á flugvöllinn. Hann óskaði eftir endurgreiðslu á þeim kostnaði sem hann varð fyrir vegna tafa á farangrinum en fyrirtækið varð ekki við þeirri ósk. Hann leitaði þá eftir aðstoð ECC-netsins sem hafði samband við flugfélagið sem endurgreiddi ferðamanninum kostnaðinn, um 120 evrur.


Týnd taska

Sænskur ferðamaður leitaði eftir aðstoð ECC-netsins vegna tapaðs farangurs. Ferðamaðurinn flaug frá Keflavík til Orlando í Bandaríkjunum en ferðataskan hans skilaði sér ekki fyrr en seint og síðar meir þegar hann var kominn aftur heim til Svíþjóðar. Vegna þessa varð hann fyrir ýmsum aukakostnaði, sem tryggingarfélag hans bætti að mestu en eftir stóðu ýmsir kostnaðarliðir sem tryggingarnar bættu ekki. Eftir að ECC á Íslandi hafði samband við flugfélagið kom í ljós að svo virtist sem taskan hefði aldrei verið innrituð til flugfélagsins og ferðamaðurinn hafði enga kvittun fyrir töskunni. Flugfélagið vildi þó leysa málið á farsælan hátt og bauð að greiða símakostnað upp á rúmar 30.000 kr., en annan kostnað fékk ferðamaðurinn að mestu greiddan frá tryggingarfélagi sínu.


Öskuteppt par fær endurgreiðslu

Hollenskt par keypti sér fjögurra daga pakkaferð til Íslands. Vegna eldgoss varð mikil seinkun á fluginu og fór svo að þau misstu af einni gistinótt sem þau höfðu þegar greitt fyrir. Eftir milligöngu ECC féllst seljandi á að endurgreiða kostnaðinn vegna gistingarinnar og jafnframt á að greiða kostnað vegna hressingar sem parið hafði þurft að kaupa sér meðan á töfinni stóð.


Ferðamaður fær tjón á farangri bætt

Kona frá Lúxemborg ferðaðist til Íslands til að heimsækja ættingja yfir jólin.  Farangrinum hennar seinkaði í 6 daga og þegar hann kom loksins til landsins var taskan og hluti innihaldsins skemmd auk þess sem suma hluti vantaði í farangurinn.  Konan neyddist til að kaupa nýja ferðatösku ásamt lágmarks fatnaði og snyrtivörum til að nota yfir hátíðarnar og fór hún fram að fá kostnaðinn bættan frá flugfélaginu sem hafnaði kröfu hennar. Í kjölfarið leitaði konan til ECC í Lúxemborg sem sendi málið til ECC á Íslandi.  Að lokum samþykkti flugfélagið að bæta konunni tjónið að hluta en enn var ágreiningur um töskuna sjálfa.  Að endingu samþykkti flugfélagið þó að greiða töskuna og fékk því konan að lokum allt tjón sitt bætt.


Staðfestingargjald í skemmtisiglingu

Fimm einstaklingar pöntuðu siglingu gegnum þýska netsíðu í maí og greiddu 10% staðfestingargjald sem nam um 240 evrum á mann.  Ferðin átti að hefjast í lok janúar árið eftir.  Í september kom í ljós að fólkið þurfti að afpanta ferðina.  Í skilmálum á þýsku heimasíðunni kom fram að ef afpantað væri með meira en 60 daga fyrirvara þyrfti að greiða 5% af verði ferðarinnar.  Þar sem meira en 60 dagar voru í brottför óskaði fólkið eftir að fá helminginn af staðfestingargjaldinu til baka.  Seljandi hafnaði þeirri kröfu og sagðist halda eftir öllu staðfestingargjaldinu með þeim rökum að skilmálarnir á síðunni hafi verið úreltir og benti á skilmála skipafélagsins sem sögðu að greiða þyrfti 10% ferðarinnar ef afpantað væri með 60 daga fyrirvara eða meira.  Seljandinn vildi einnig meina að neytendurnir hefðu gert samning við skipafélagið en ekki sig. Í október hafði fólkið samband við ECC á Íslandi sem sendi málið til ECC í Þýskalandi og eftir milligöngu netsins fékk fólkið loks endurgreitt þessi 5% eða u.þ.b. 120 evrur á mann.


Tengdar fréttir

Air Berlin lýsir yfir greiðsluþroti

Samkvæmt ECC í Þýskalandi lýsti þýska flugfélagið Air Berlin þann 15. ágúst 2017 yfir greiðsluþroti. Enn sem komið er hefur fyrirtækið ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta.

Hvað þýðingu hefur greiðsluþrotið fyrir þá farþega sem nú þegar eiga bókuð flug með Air Berlin?
Flugfélagið hefur fengið fjármagn frá þýskum yfirvöldum til að halda starfsemi áfram næstu þrjá mánuði. Þetta þýðir að enn sem komið er ættu þeir farþegar sem þegar hafa bókað flug með flugfélaginu ekki að hafa áhyggjur af því að flugi þeirra verði aflýst vegna greiðsluerfiðleikanna.


Skoðun þín á heilbrigðisþjónustu í...

Hefur þú nýtt þér heilbrigðisþjónustu í öðru landi innan Evrópu, hvort sem það var óvænt á ferðalagi þínu eða vegna fyrirhugaðrar meðferðar? Hvernig var reynsla þín?

ECC-Netið vinnur nú að því með ANEC (Evrópsk hagsmunasamtök um aðild neytenda að staðlagerð) að safna upplýsingum frá evrópskum neytendum af reynslu þeirra af heilbrigðisþjónustu í öðrum Evrópulöndum. ANEC mun nota upplýsingarnar í vinnu sinni í staðlagerð í þágu neytenda til að gera heilbrigðisþjónustu á milli landamæra innan EES auðveldari.


Góð ráð þegar keyptir eru miðar á...

Margir nota internetið meira og meira til að fjárfesta í miðum á hina ýmsu viðburði, svo sem tónleika og íþróttaviðburði. Nokkrar slíkar hátíðir eru á hverju ári í Portúgal og af þeim sökum hefur ECC í Portúgal gefið út nokkur góð ráð fyrir þá sem ætla að kaupa miða á netinu á viðburði þar í landi. Þótt ráðin séu sérstaklega hnitmiðuð að Portúgal þá er hægt að heimafæra þau yfir á kaup á viðburði í öðrum löndum.

Nokkur góð ráð: