Óréttmætir viðskiptahættir

Í lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu er að finna ýmsar reglur um háttsemi fyrirtækja og umfjöllun um óréttmæta viðskiptahætti. Lögin fela í sér innleiðingu á Evróputilskipun og eru reglur um viðskiptahætti sambærilegar í öllum löndum EES-svæðisins.

Á grundvelli laganna hafa jafnframt verið settar fjölmargar reglur, eins og t.d. um verðmerkingar á útsölu, um verðmerkingar og einingarverð við sölu á vörum, og um verðupplýsingar við sölu á þjónustu.

Nokkur atriði laganna:

Lögin taka til allrar atvinnustarfsemi, óháð því hvort hún er rekin af einstaklingum eða fyrirtækjum.

- Auglýsingar eiga að vera skýrt aðgreindar frá öðru efni, þannig að ekki leiki vafi á að um auglýsingu sé að ræða. Þetta þýðir að ekki má dulbúa   auglýsingu  sem frétt eða almennan dagskrárlið.

- Ef fullyrðingar koma fram í auglýsingum (besta kjötið, ódýrasta gólfefnið) þarf sá sem auglýsir að geta sannað þær.

- Ekki má auglýsa útsölu eða tilboð nema um raunverulega verðlækkun sé að ræða.

- Ekki má gefa út ábyrgðaryfirlýsingu með vöru nema ábyrgðin veiti neytanda í raun meiri rétt en hann hefur samkvæmt lögum (t.a.m. hefur neytandi tveggja ára kvörtunarfrest vegna galla á vöru, því má ekki gefa sérstaka yfirlýsingu um tveggja ára ábyrgð vegna galla. Ábyrgðin verður raunverulega að fela í sér eitthvað meira en neytandinn á rétt á samkvæmt lögum sem gilda annars um viðskiptin).

- Skylt er að merkja vöru og þjónustu sem seld er til neytenda þannig að auðvelt sé fyrir neytendur að sjá hvað varan kostar.

Óréttmætir viðskiptahættir eru bannaðir. Viðskiptahættir eru óréttmætir ef þeir brjóta í bága við góða viðskiptahætti og raska eða eru líklegir til að raska verulega fjárhagslegri hegðun neytenda.

Villandi viðskiptahættir (að veita rangar upplýsingar, um t.a.m. eðli, einkenni, eða verð vöru, til þess að fá neytendur í viðskipti) eru bannaðir. Það teljast einnig villandi viðskiptahættir ef ekki er greint frá upplýsingum sem skipta neytendur máli og upplýsingarnar hefðu haft áhrif á ákvörðun um að eiga viðskiptin.

Þá hefur verið sett reglugerð um viðskiptahætti sem teljast undir öllum kringumstæðum óréttmætir. Reglugerðin er innleiðing á viðauka við Evróputilskipun, og því gilda sömu reglur í öllum löndum innan EES-svæðisins. Meðal þess sem er bannað samkvæmt reglugerðinni er að:

  1. Að halda því fram að vara sé bara fáanleg í mjög stuttan tíma til að fá neytanda til að taka skyndiákvörðun um kaupin.
  2. Að auglýsa réttindi sem neytandinn á hvort eð er samkvæmt lögum sem eitthvað sem seljandi býður sérstaklega.
  3. Að koma á framfæri vöru sem líkist vöru frá tilteknum framleiðanda (neytandinn blekktur til að trúa því að varan sé frá þeim framleiðanda) þó sú  sé ekki raunin.
  4. Að reka, eða kynna, píramídafyrirkomulag þar sem þóknun neytandans grundvallast á því að hann safni fleira fólki í píramídann.
  5. Að segja neytanda ranglega að verslunin sé að hætta eða flytja.
  6. Að segja neytanda að hann hafi unnið eða muni vinna í happdrætti eða fá verðlaun ef sannleikurinn er sá að ekki er um neinn vinning að ræða eða ef neytandinn þarf að greiða einhvern kostnað til að fá vinninginn (dæmi um svona svikamyllur eru Nígeríubréfin og tilkynningar um vinning í tölvupósthappdrættum).

Tengdar fréttir

Euro Business Guide

Á hverju ári fær ECC Ísland nokkur erindi frá fyrirtækjum sem hafa skráð sig í Euro Business Guide eða European City Guide. Þar sem yfirleitt er um fyrirtæki en ekki einstaklinga að ræða getur ECC-netið ekki tekið þessi mál til meðferðar að öðru leyti en því að veittar eru almennar ráðleggingar.


Svik á netinu

ECC Ísland fær mikið af fyrirspurnum frá fólki sem fær tilkynningar í tölvupósti um að það hafi unnið hitt eða þetta í happdrætti. Oft er um verulegar fjárhæðir - eins og milljón pund eða milljón evrur - að ræða. Fólk skyldi þó hafa varann á því alla jafna er um svindl að ræða. Tilkynningar um vinninga berast í tölvupósti og til að vitja vinningsins þarf að senda ýmsar persónuupplýsingar. En það er ekki nóg - oftar en ekki þarf að senda peninga út til að fá vinninginn greiddan - þessar peningagreiðslur eru sagðar vera vegna bankakostnaðar, trygginga, skatta eða annars slíks.


Listin að kvarta

Gagnlegar leiðbeiningar frá ECC Íslandi um hvernig er best að koma á framfæri kvörtun við seljanda.

Rétt hegðun                                                             

 1.     Stattu í armlengd frá seljanda                           

 2.     Viðhaltu góðu augnsambandi                           

 3.     Talaðu skýrt og ákveðið                                     

 4.     Andaðu hægt og rólega                                    

 5.     Beittu röddinni hæfilega