Hvað geri ég ef farangurinn minn skilar sér ekki eftir flug?

Íslenska
Answer: 

Ef farangurinn er ekki á flugvellinum þegar þú lendir þarf að tilkynna það strax, og fylla út sérstakt eyðublað á flugvellinum.

Ef farangurinn skilar sér svo innan þriggja vikna er aðeins um „töf“ að ræða og eftir að þú færð farangurinn í hendur hefurðu þrjár vikur til að krefja flugfélagið um bætur vegna tjóns sem leiðir af töfinni. Ef farangurinn hins vegar skilar sér en er skemmdur þarf líka að tilkynna um það strax á flugvellinum (þess vegna er mikilvægt að skoða farangur vel áður en flugvöllurinn er yfirgefinn). Í kjölfarið þarf svo að senda bótakröfu til flugfélagsins en frestur til að gera það er aðeins sjö dagar.

Ef farangur skilar sér ekki innan þriggja vikna er litið svo á að hann sé „týndur“ og sama gildir tilkynni flugfélagið þér að farangurinn finnist ekki. Í slíkum tilvikum þarf að tilkynna að farangurinn hafi ekki skilað sér strax á flugvellinum og í kjölfarið þarf að senda flugfélaginu skriflega kröfu um bætur vegna tjónsins. Í öllum tilvikum er þak á bótum vegna tjónsins, að upphæð 1.000 SDR (u.þ.b. 1.060 evrur). Þetta er hámarksupphæðin en ekki tala sem flugfélögin greiða sjálfkrafa, heldur þarf neytandinn að sanna tjónið. Nokkuð misjafnt er milli flugfélaga hvernig bætur eru reiknaðar, hvort byggt er á raunverulegu tjóni eða reiknireglum sem flugfélögin hafa sjálf sett sér.

Til öryggis er bent á að best er að geyma allar kvittanir vegna hluta sem þarf að kaupa ef farangur skilar sér ekki. Þrátt fyrir tjónið verða bæturnar ekki hærri en þessu þaki nemur, telji neytandi sig því vera með sérlega verðmætan farangur þarf að tilkynna flugfélaginu um það sérstaklega.