Ferðanefnd úrskurðar sænskum neytanda í hag

Þriðjudagur, 8. desember 2015 - 15:45
Íslenska

Sænskur neytandi leigði bíl af íslenskri bílaleigu. Tæplega þremur vikum eftir að viðkomandi hafði skilað bílnum voru 120.000 krónur dregnar af kreditkortareikningi hans. Neytandanum barst síðar bréf þess efnis að um væri að ræða sjálfsábyrgð vegna tjóns á afturstuðara og framrúðu. Viðkomandi kannaðist ekki við að hafa valdið umræddu tjóni og fór því fram á endurgreiðslu. Því hafnaði bílaleigan og taldi að skemmdirnar hefðu komið til á meðan neytandinn hafði bifreiðina í sinni vörslu. Máli sínu til stuðnings lagði bílaleigan fram myndir af skemmdunum á bifreiðinni ásamt samantektarskýrslu bifreiðaverkstæðis vegna tjónsins. Þrátt fyrir milligöngu ECC tókst ekki að ná sáttum í málinu og aðstoðaði ECC á Íslandi því neytandann við að leggja málið fyrir Úrskurðarnefnd Neytendasamtakanna og Samtaka ferðaþjónustunnar. Niðurstaða nefndarinnar var sú að bílaleigunni var gert að endurgreiða þá fjárhæð sem dregin hafði verið út af kreditkortareikningi, m.a. með þeim rökum að myndir þær er bílaleigan lagði fram í málinu sýndu ekki með óyggjandi hætti fram á að tjónið hefði átt sér stað áður en bílnum var skilað, en enginn starfsmaður bílaleigunnar var viðstaddur skilin á bílnum.

ECC Categories: